Rússneski auðjöfurinn Oleg Deripaska hyggst gefa eftir meirhlutaeign sína EN+, móðurfélagi Rusal, næst stærsta álframleiðanda heims til að reyna að koma fyrirtækinu undan viðskiptaþvingunum Bandaríkjastjórnar.

Rusal hefur verið útilokað frá álmörkuðum frá því viðskiptaþvinganirnar voru innleiddar gegn fyrirtækinu fyrr í þessum mánuði vegna tengsla Deripaska við Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

Álverð rauk upp fyrst eftir að viðskiptaþvinganirnar voru innleiddar en hefur lækkað nokkuð síðustu daga þar sem áhyggjur fjárfesta af viðskiptaþvingununum virðast vera í rénun.

Deripaska hyggst færa hlutabréfaeign sína í EN+ undir 50% en hann á í dag um 70% í fyrirtækinu. Þá hyggst hann segja sig úr stjórn fyrirtækisins og búa svo um að hann geti ekki valið forstjóra Rusal eða hafa bein afskipti af rekstri fyrirtækisins að því er FT greinir frá.

Fulltrúi Bandarískra stjórnvalda segja þó óljóst hvort þetta muni duga til að koma Rusal undan viðskiptaþvingununum, fleira komi til álita en hvort einstaklingar sem viðskiptaþvinganir beinist gegn eigi meirihluta í fyrirtækjum.