Skeljungur skilaði 6,1 milljarðs króna hagnaði ári en afkoman skýrist einkum af sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn en hagnaður vegna aflagðrar starfsemi er bókfærður á 5,9 milljarða króna. Stjórn Skeljungs leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 500 milljónir króna vegna síðasta rekstrarárs. Skeljungur birti ársuppgjör 2021 í kvöld.

Velta Skeljungs jókst um 32% á milli ára og nam 33,9 milljörðum króna. Framlegð félagsins jókst um 20% og nam 6,6 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2 milljörðum króna, samanborið við 1,2 milljarða árið 2020.

Hagnaður Skeljungs á fjórða ársfjórðungi, án hagnaðar af aflagðri starfsemi, nam 192 milljónum króna, samanborið við 48 milljónir á sama tímabili árið 2020. Velta félagsins á fjórðungnum óx um 59,4% frá fyrra ári og nam 14,6 milljörðum.

Eignir Skeljungs jukust úr 25,5 milljörðum í 33,0 milljarða á milli ára. Eigið fé félagsins nam 16,4 milljörðum, skuldir 16,5 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 49,9%.

Félagið áætlar að afkoma samstæðunnar verði jákvæð um 7,6-8,3 milljarða króna eftir skatta að teknu tilliti til vænts söluhagnaðar af fasteignum að fjárhæð 5 milljarðar. Gert er ráð fyrir að afkoma af áframhaldandi starfsemi og fjárfestingastarfsemi verði á bilinu 2,6-3,3 milljarðar króna eftir skatta.

Nýtt nafn og vindmyllugarður í Færeyjum

Stjórn Skeljungs hyggst leggja fyrir tillögu um að breyta nafni félagsins í SKEL fjárfestingafélag. Nýja nafnið kemur í kjölfar uppstokkunar á rekstrinum ásamt því að tilgangi félagsins í samþykktum var breytt þannig að hluthafafundi í október „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“.

Sjá einnig: Dótturfélög Skeljungs taka til starfa

Starfsemi Skeljungs var nýverið skipt upp í þrjú dótturfélög: Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon. Þá var færeyska dótturfélagið Magn selt til Sp/f Orkufelagsins í Færeyjum og var endanlegt heildarkaupverð hlultanna 12,2 milljarðar. Skeljungur endurfjárfestir þó 2,8 milljörðum í Sp/f Orkufélaginu og mun fara með 48% hlut.

Í fjárfestakynningu Skeljungs kemur fram að markmið Orkufélagsins sé að verða leiðandi í öllum orkulausnum í Færeyjum. Félagið hyggst kanna fjárfestingar í vindi, sól, jarðhita og hitaveitu (djúpborun), jarðgasi ásamt dreifingu og geymslu. Þá er minnst á sameiginlegt verkefni Orkufélagsins og LÍV lífeyrissjóði um vindmyllugarð. Félagið er með 20 ára framleiðsluleyfi fyrir 18MW í ‚take or pay‘ samningi við raforkufyrirtæki Færeyja.

Skeljungur tilkynnti einnig í lok síðasta árs um tæplega 6 milljarða sölu á fasteignum til Kaldalóns, sem fól í sér 3,6 milljarða greiðslu með reiðufé og hlutum í fasteignafélaginu, sem skráð er á First North-markaðinn að verðmæti allt að 2,4 milljörðum. Skeljungur mun fara með um 20% hlut í Kaldalóni.

Sjá einnig: Hagnast um 12 milljarða af eignasölu

Skeljungur verður einnig með 50% hlut, sem áætlaður er á 2 milljarða króna, í verkefni með Reir ehf. sem felur í sér blönduðu safni þróunarverkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Ólafur Þór Jóhannesson, forstjóri Skeljungs:

„Við erum afar ánægð og stolt af árangri ársins 2021. Samhliða skipulagsbreytingum, sölu dótturfélagsins P/F Magn í Færeyjum og rekstrarlegri uppskiptingu með stofnun þriggja dótturfélaga tókst samstæðunni að skila bestu EBITDA afkomu frá upphafi. Þá skilaði Skeljungur mesta hagnaði í sögu félagsins eða rúmlega 6,9 milljörðum króna. Starfsfólk félagsins á miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt í þessum stóru verkefnum.

Afkoma fjórða ársfjórðungs var góð og batnaði verulega milli ára, einkum af áframhaldandi starfsemi samstæðunnar á Íslandi. Rekstur Löðurs og Dælunnar varð hluti af samstæðu Skeljungs frá og með 1. ágúst. Lyfsalinn, sem er 58% í eigu Skeljungs, keypti Lyfjval sem m.a. rekur bílaapótekið í Hæðasmára. Rekstur Lyfsalans kom inn í samstæðuna á fjórða ársfjórðungi samhliða viðbótarfjárfestingu okkar í Lyfsalanum. Með þessum nýju félögum höfum við fjölgað tekjustoðum, aukið fjölbreytileika og styrkt félagið til framtíðar.

Skeljungur ákvað að skerpa á áherslum í rekstri með stofnun þriggja dótturfélaga sem er að fullu í eigu félagsins þ.e. Orkan IS ehf., félag í smásölu , Skeljungur IS ehf., sala til fyrirtækja og heildsala og Gallon ehf., rekstur birgðastöðva. Uppskiptingin kom til framkvæmda þann 1. desember 2021. Byrjunin í rekstri þessara félaga lofar mjög góðu.

Vinna við frágang á sölu fasteigna stendur yfir en með sölu þeirra mun Skeljungur eignast hlutafé í Kaldalóni hf. og fasteignarþróunarfélagi með Reir. Stefnt er að því að ljúka þeim viðskiptum á fyrsta ársfjórðungi 2022.

Við sölu fasteigna, eignarhluta í Magn og rekstrarlega uppskiptingu verður til sterkt móðurfélag með mikla fjárfestingagetu. Áherslan verður á að styrkja núverandi rekstrarfélög og auk annarra fjárfestinga.

Fyrir aðalfund 2022 liggur fyrir tillaga um að breyta nafni félagsins í SKEL fjárfestingafélag. Það er ný og spennandi vegferð framundan fyrir félagið og dótturfélög þess.“