*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 24. september 2019 16:52

Slitnað upp úr kjaraviðræðum

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum BSRB við ríkið á fundi í dag. Helst er deilt um styttingu vinnuvikunnar.

Ritstjórn
BSRB var stofnað árið 1942 en Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður félagsins.
Aðsend mynd

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum BSRB, stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi, við ríkið á fundi í dag. Formaður BSRB hefur boðað samningseiningar bandalagsins til fundar á morgun en þar verður lögð fram tillaga um að kjaradeilunni verði vísað til ríkissáttasemjara.

„Viðræður okkar við ríkið hafa ekkert þokast undanfarið og við munum gera því þá tillögu á fundi samningseininga BSRB á morgun að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Á fundi samninganefndar BSRB lögðu fulltrúar ríkisins fram tillögu að lausn deilunnar en bandalagið taldi það algjörlega óásættanlegt. Helst er deilt um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 vinnustundir án kjaraskerðinga, með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk.

Í tilboði ríkisins miðuðuð þau sig við 40 stunda vinnuviku en hafa opnað á möguleikann á að stytta vinnuvikuna en einungis á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum.