Streymisrisinn Spotify hagnaðist um rúmlega 1 milljarð evra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt uppgjöri en fyrirtækið hefur ráðist í miklar hagræðingar undanfarið ár.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC fækkaði sænska streymisveitan vinnuafli sínu um 17%. Fyrirtækið áætlar einnig að ná til milljarðs notenda fyrir árið 2030.

Daniel Ek, forstjóri Spotify, sagði í desember á síðasta ári að 1.500 stöðugildi yrðu lögð niður til að hjálpa fyrirtækinu við að ná markmiðum sínum. Hann tilkynnti svo í gær að Spotify myndi halda áfram með markmið sín þar sem fyrirtækið væri nú komið með það fjármagn sem það þyrfti.

„Við ætlum að bæta við okkur markaðsútgjöldum fyrir árið vegna þess að við viljum halda áfram að vaxa og við sáum að á sumum sviðum drógum við okkur aðeins of mikið í hlé,“ sagði Ek.

Spotify hefur til að mynda fjárfest yfir milljarð evra til að byggja upp hlaðvarpsviðskipti sín með vinsælum hlaðvarpsþáttum eins og The Joe Rogan Experience. Stór hluti af tekjum fyrirtækisins voru þá vegna hlaðvarpsþátta, eða um 27,6% á nýliðnum ársfjórðungi.