Flest bendir til þess að ákvörðun hafi verið tekin um starfslok Bjarna Ármannssonar, forstjóra Glitnis, þó ekki liggi fyrir staðfesting á því frá bankanum eða talsmönnum hans. Heimildir Viðskiptablaðsins segja að rætt hafi verið við Lárus Welding, sem stýrir útibúi Landsbankans í London, um að hann taki við.

Hluthafafundur Glitnis hefst kl. 15 á eftir og er gert ráð fyrir að tilkynning um starfslok Bjarna verði þar gefin út en hann starfi með eftirmanni sínum næstu vikur á eftir. Helstu viðskiptavinir bankans hafa fengið ádrátt um að af  starfslokunum verði en um það hefur verið þrálátur orðrómur lengi.