Það stefnir í að það verði byggð yfir þúsund ný hótelherbergi í Reykjavík á næstu árum. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs, á morgunfundi Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Reykjavík sem haldinn var í gær.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Dagur að uppbyggingin muni taka um fimm ár. Stærsta uppbyggingin verður við hótel á Höfðatorgi og við hlið tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

„Okkar spár um þörf á hótelherbergjum miðað við 5-7% vöxt í ferðaþjónustu er að það þurfi að bæta við svona 250 herbergjum á ári. Þannig að þetta er svona í ágætis takti við það,“ segir Dagur. Auk fyrrgreindra hótela er meðal annars stefnt að því að byggja við Marína og við Hótel Borg.