Lögmaður Sam Bankman-Fried, stofnanda FXT rafmyntakauphallarinnar sem féll með látum á síðasta ári, hefur farið fram á við dómstóla í New York borg að flestöllum sakamálaákærum á hendur skjólstæðingi sínum verði vísað frá dómi.

Lögmaðurinn segir ákærur dómsmálaráðuneytisins á hendur Bankman-Fried vera gallaðar og þær beri þess merki að hafa verið unnar í flýti.

Bankman-Fried var handtekinn á Bahamas-eyjum í desember um mánuði eftir að rafmyntakauphöll hans sótti um gjaldþrotaskipti. Hann var meðal annars ákærður fyrir að stela milljörðum dala frá viðskiptavinum sínum og hafa auk þess veitt fjárfestum og lánadrottnum ósannar upplýsingar um fjárhagsstöðu rafmyntakauphallarinnar.