Dómur fellur í riftunarmáli þrotabús Kaupþings gegn Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni bankans. Málið, sem hefur þvælst fram og til baka í dómskerfinu, snýst um þá kröfu slitastjórnar að Sigurður greiði þrotabúinum 550 milljónir króna vegna lána sem hann fékk hjá bankanum í stjórnartíð sinni.

Heildarlánin sem Sigurður fékk til kaupa á hlutabréfum í bankanum námu samtals 5,5 milljörðum króna og er hann krafinn um að greiða aftur 10% af þeirri upphæð en það er sú fjárhæð sem hann er sagður í ábyrgð fyrir.

Sigurður neitaði því við aðalmeðferð málsins á mánudag fyrir viku og vísaði til þess að þremur vikum áður en bankinn fór í þrot hafi stjórn bankan aflétt persónulegum ábyrgðum af skuldum þeirra starfsmanna sem höfðu fengið lán til hlutabréfakaupanna.

Fordæmi í síðustu viku

Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku dóm þess efnis að rifta skuli niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar fyrrverandi starfsmanns hjá bankanum vegna lána sem hann fékk til kaupa á hlutabréfum í bankanum.

Lánin voru tekin árin 2005 og 2007 og var gert ráð fyrir að persónuleg ábyrgð hennar takmarkaðist við 10% skuldarinnar. Í dómi Hæstaréttar var því hafnað að allir starfsmenn bankans nytu skaðleysis af kaupum í bankanum. Segir í dómnum að ekki sé kveðið á um slíkt skaðleysi í lánasamningum.

Málið er talið gefa vísbendingu um það hvernig sambærileg mál munu falla fyrir Hæstarétti þegar þau berast þangað. Það sama er talið gilda um mál slitastjórnar Kaupþings gegn Sigurði Einarssyni.