Í umsögn Viðskiptaráðs sem var skilað í dag, þar sem fjallað er um mögulegar breytingar á reglugerðum um áfengi og tóbak, segir að ráðið sé fylgjandi því að breytingar verði gerðar á stöðu mála, og að ráðið styðji afnám einokunar smásölu áfengis. Umsögn Viðskiptaráðs má lesa hér .

Í umsögninni kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að um atvinnurekstur sé að ræða ríki einokun á smásölu áfengis. Slíkt verður til þess að lögmál markaðarins um samkeppni leiða ekki til aukinnar hagkvæmni í rekstri, að mati Viðskiptaráðs. Því telur ráðið að afnám einokunarinnar muni leiða til bættrar þjónustu og lægra vöruverðs fyrir neytendur.

Auk þess telur Viðskiptaráð að forvarnastarf sé árangursríkari leið til að draga úr misnotkun á áfengi - fremur en að einokun sé notuð sem takmörkun á neyslunni með lýðheilsu að sjónarmiði. Þá telur ráðið einnig að afnám einkaleyfis ÁTVR muni ekki hafa veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs - en Viðskiptaráð vísar í tölur úr ársskýrslu ÁTVR þessari ályktun til stuðnings.