Síminn tilkynnti fyrr í dag um einkaviðræður við franska sjóðstýringarfyrirtækið Ardian France SA, sem rekur innviðasjóðinn Ardian Infrastructure Fund V, í tengslum við mögulega sölu á Mílu. Dominique Senequier, stofnandi og forseti Ardian, er í 91. sæti á lista Forbes yfir valdamestu konur heims, einu sæti á undan Reese Witherspoon.

Senequier hefur reglulega komist inn á listann og var fyrir nokkrum árum nálægt topnnum. Árið 2013 sat hún í sextánda sæti og 2014 náði hún tólfta sæti.

Þess er getið hjá Forbes að Senequier var ein af einungis sjö konum sem fengu inngöngu í háttvirta háskólann École Polytechnique árið 1972, fyrsta árið sem konum var gefinn kostur á að sækja um.

Senequier stofnaði Ardian árið 1996, þá sem dótturfélag franska tryggingarfélagsins AXA. Stjórnarformaður AXA lofaði að leggja sjóðstýringarfélaginu, sem hét þá AXA Private Equity, einn franka fyrir hverja tvo sem hún aflaði frá öðrum fjárfestum. Upphaflega var fyrirtækið skilgreint sem yfirtökusjóður (e. buyout fund), réð yfir 110 milljónum dala og var með tvö viðskiptavini utan AXA samstæðunnar.

Árið 2013 keyptu starfsmenn, með Senequier í fararbroddi, sjóðinn af AXA og var þá nafninu breytt í Ardian. Þá var fyrirtækið með 36 milljarða dala í stýringu og 320 starfsmenn. Í dag er Ardian með 114 milljarða dala í stýringu og hjá fyrirtækinu starfa yfir 800 manns. Meðal fjárfesta í Ardian eru ríkisstofnanir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og stofnanafjárfestar.