Stjórn fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hefur boðað til hluthafafundar sem haldinn verður miðvikudaginn 31. ágúst næstkomandi í höfuðstöðvum félagsins að Suðurlandsbraut 8. Fundurinn er boðaður að kröfu nýstofnaða fjárfestingafélagsins Gavia Invest, sem varð stærsti hluthafi félagsins í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Gavia, sem eignaðist 16,1% hlut í Sýn í síðustu viku, krefst þess að tekin verði fyrir tillaga um að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin. Telur Gavia „að vegna umtalsverðra breytinga sem orðið hafa á hluthafahópi Sýnar hf. nú nýverið sé rétt að umboð stjórnar félagsins verði endurnýjað og að stjórnarkjör fari fram“.

Að því gefnu að hluthafar samþykkja að bundinn verði endir á kjörtímabili sitjandi stjórnar mun fara fram stjórnarkjör á fundinum.

Jón Skaftason leiðir hópinn að baki Gavia en að honum koma einnig InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf., sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff, en Rubini hefur lengi borið nafnbótina ríkasti maður Alaska.

Fjallað var um Gavia í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag en greint var frá því að Reynir sé aðaleigandi fjárfestingafélagsins.

Sjá einnig: Telur fjárfesta vanmeta Sýn verulega

Reynir sagði í samtali við Viðskiptablaðið að Gavia stefni að því að Jón Skaftason verði kjörinn inn í stjórnina. Hann sé þó sjálfur tilbúinn að taka sæti í stjórninni ef áhugi sé fyrir því meðal hluthafa. „Mér finnst eðlilegt að við verðum í leiðtogahlutverki þarna ef við erum stærsti hluthafinn og það eru fleiri sem styðja okkar hugmyndir.“

Tilnefningarnefnd Synar tekur við framboðum til stjórnar til kl. 10 á fimmtudaginn 11. ágúst. Nefndin hyggst skila skýrslu sinni og tillögu um stjórnarmenn eigi síðar en föstudaginn 19. ágúst. Tillaga nefndarinnar takmarkar ekki frekari framboð til stjórnar en frambjóðendum ber að tilkynna um framboð sitt með minnst fimm sólarhringa fyrirvara fyrir fundinn.

„Allt er þetta gert með fyrirvara um að raunverulegt stjórnarkjör fari fram á fundinum.“

Í stjórn Sýnar sitja:

  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður
  • Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, varaformaður
  • Jóhann Hjartarson
  • Páll Gíslason
  • Sesselía Birgisdóttir