Heildargreiðsluskylda Náttúruhamfaratryggingar Íslands vegna hvers vátryggingaratburðar takmarkast við 1% af öllum eignum sem hún tryggir. „Þannig takmarkast greiðsluskyldan við 150 milljarða núna, en virði allra þeirra eigna sem stofnunin tryggir nema að um 15.000 milljarða króna í heild. Færi heildartjónið fram yfir 150 milljarða, myndu bótagreiðslur tjónþola verða skertar hlutfallslega,“ segir Jón Örvar Bjarnason, sviðstjóri trygginga hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

„En líkurnar á því að það verði svo miklar hamfarir þar sem stofnunin lendir í verulegum vandamálum með að borga bæturnar, þær eru mjög litlar. Við drögum línuna þar sem við teljum okkur vera örugg, en auðvitað er ekki hægt að lofa því að ekkert komi fyrir sem við ráðum ekki við. Okkar áhættumat bendir til þess að við ráðum við mjög stóra og sjaldgæfa náttúruhamfaraatburði.“

Til samanburðar við þá 150 milljarða sem greiðsluskylda NTÍ nær til, þá er heildarbrunabótamat í póstnúmeri 240, Grindavíkurbæ 105 milljarðar króna, og fasteignamatið fyrir árið 2023 73 milljarðar króna. Á Völlunum í Hafnarfirði, póstnúmeri 221 er heildarbrunabótamat 330 milljarðir króna og fasteignmat fyrir 2023, 400 milljarðar króna. Tryggingin bætir tjón samkvæmt brunabótamati að undanskilinni eigin áhættu sem er 400 þúsund krónur fyrir húseignir.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.