Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er verklaus þegar kemur að meginhagsmunamálum almennings og atvinnulífs með þeirri undantekningi að litið hefur verið til með sjávarútveginum. Þetta er mat fjárfestisins og framkvæmdastjórans Helga Magnússonar, fyrrverandi formanns stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna og fyrrverandi formanns Samtaka iðnaðarins. Hann skrifar grein sem birt var í Fréttablaðinu í dag í framhaldi af þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Í greininni rifjar Helgi upp kosningaloforð frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í síðustu þingkosningum í fyrravor þess efnis að þjóðin fái að kjósa um framhald aðildarviðræða við Evrópusambandið. Helgi segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að beita sér fyrir grímulausum svikum við kjósendur í því efni, þrátt fyrir ótvíræð kosningaloforð og hnýtir við að ekki sé víst að stjórnin muni sitja allt kjörtímabilið.

Helgi er í grein sinni á svipaðri línu og Þorsteinn Pálsson , fyrrverandi ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði Vikulokunum á RÚV á laugardag að verði ekki gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram þá séu það ein stærstu svik sem gerð  hafa verið í íslenskum stjórnmálum.

Segir ríkisstjórnina verklausa

Helgi skrifar í grein sinni: „Við sem gagnrýndum fyrri ríkisstjórn og kusum þá flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn út á kosningaloforð sem nú hafa verið svikin, hljótum að spyrja: Til hvers var barist?“

Í grein sinni ber Helgi saman því sem haldið var fram um vinstristjórn VG og Samfylkingar sem tók við vorið 2009 og þá sem nú situr.

Helgi skrifar:

„Á síðari hluta síðasta kjörtímabils var gjarnan talað um „Verklausa vinstristjórn“. Ekki veit ég hver byrjaði með þetta slagorð, hvort það var einhver úr stjórnarandstöðunni eða þá hvatvís fjölmiðlamaður af ÍNN, Morgunblaðinu eða DV. Það skiptir ekki meginmáli en þeir sem héldu þessu á lofti bentu á fjölmörg mál sem þáverandi ríkisstjórn hafði ætlað að koma í framkvæmd en kom ekki í framkvæmd. Svo kom til stjórnarskipta í maí á síðasta ári og þá trúðu margir því að veður myndu skjótt skipast í lofti og að nú tækju menn til hendi og færu að hrinda hratt og örugglega ýmsu í framkvæmd sem almenningur og atvinnulífið höfðu beðið eftir,“ skrifar Helgi og lýsir því að þegar stjórn Framsóknarflokks og Framsóknarflokks tók við í fyrrsumar hafi hann verið einn af þeim sem trúðu á hraðar breytingar til hins betra. Hann rifar upp að hann hafi haldið því fram að ferill síðustu ríkisstjórnar hefði verið slys og að nú væri björgunarliðið komið á slysstað, sem myndi láta hendur standa fram úr ermum.“

Þá skoðar Helgi nokkur mál sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni og kemst hann að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við loforðin. Hún hafi t.d. ekki lækkað skatta að ráði að því undanskildu að tryggingagjald var lækkað um 0,1%, aukinni nýtingu orkuauðlinda hafi ekki verið hrint í framkvæmd, ekki sé búið að höggva á hnútinn sem hafi hamlað fjárfestingum og uppbyggingu álvers í Helguvík og ekki afnumið gjaldeyrishöft.