Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins (SI), segir ljóst að búa þurfi til meiri raforku á Íslandi ef markmið um full orkuskipti eigi að nást. Á dögunum stóðu samtökin, ásamt Landsvirkjun, Samorku og EFLU, fyrir opnun á nýjum upplýsingavef, orkuskipti.is.   Á vefnum má nálgast upplýsingar um orkunotkun Íslands, orkuskiptin og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Á sama tíma var greining EFLU á efnahagslegum áhrifum orkuskipta kynnt. Á vefnum kemur meðal annars fram að Ísland noti um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna. Til að setja fjárhæðina í samhengi jafngildir hún verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í hálft ár. Olíunotkunin skiptist í 52% fyrir flugvélar, 26% fyrir skip, 15% fyrir stærri ökutæki og 7% fyrir fólksbíla.

„Það er talsvert rætt um rafbílavæðingu fólksbílaflotans en í stóra samhenginu eru þeir lítill hluti af olíunotkun Íslands. Íslensk stjórnvöld hafa sett markmið um að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust árið 2040 og við töldum þar af leiðandi mikilvægt að helstu upplýsingar um orkunotkun Íslands yrðu settar fram á aðgengilegan hátt Þessar upplýsingar eru og hafa verið opinberar, t.d. í skjölum á vef Orkustofnunar, en verið fremur óaðgengilegar fyrir almenning. Að sama skapi hefur vantað upp á að upplýsingar um orkunotkun og orkuskiptin séu settar fram á mannamáli en það skiptir máli því þetta er stórt hagsmunamál fyrir Ísland og varðar okkur öll. Við töldum mikilvægt að fólk gæti kynnt sér þessi mál betur, ekki síður til þess að umræðan um orkuskipti byggi á gögnum og staðreyndum. Það eru stórar ákvarðanir framundan sem er mikilvægt að byggja á staðreyndum.“

Liggur á að hefjast handa

Sigríður segir ljóst að fólk hafi misjafnar skoðanir á flestu sem viðkemur orkumálum en það sé lykilatriði að umræðan sé byggð á staðreyndum. „Það þarf að afla meiri orku á Íslandi ef við ætlum að tryggja orkuskipti og huga að orkuöryggi og sjálfstæði Íslands. Það skiptir máli að við séum ekki bara að skipta út olíu fyrir aðra innflutta orkugjafa, heldur að við séum sjálfum okkur næg með því að framleiða orku hér innanlands til þess að knýja samfélagið allt. Í dag er langt þar á milli, þ.e.a.s. orkuframleiðsla á Íslandi dugar ekki fyrir orkunotkun samfélagsins og hagkerfisins.“

Sigríður bendir á að hver sem niðurstaðan verður um hve mikið þurfi að auka raforkuframleiðslu landsins, liggi á að hefja framkvæmdir þar sem uppbygging í raforkukerfinu taki fjölmörg ár. „Þegar sem dæmi er talað um orkuskipti í flugi sem framtíðarmúsík þá mótmæli ég þeirri staðhæfingu og segi: framtíðin er núna og við þurfum að hefja undirbúning orkuskipta strax. Við þurfum að vera tilbúin með orkuna þegar tæknin í fluginu verður tilbúin.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.