*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 16. október 2019 19:15

Ákærður fyrir tugmilljarða fjársvik

Fyrrverandi ráðgjafi fyrir GAMMA í New York er ákærður í Bandaríkjunum fyrir milljarða fjársvik. Málið er ótengt störfum hans fyrir GAMMA.

Ingvar Haraldsson
Pavan Bakhshi var ráðgjafi GAMMA í New York fram á árið 2018. Honum er gefið að sök að hafa reynt að svíkja milljarða út úr fjárfestum í gegnum félag sem skráð var á markað í London.
Aðsend mynd

Bretinn Pavan Bakhshi, fyrrverandi ráðgjafi fyrir GAMMA í New York, var ákærður undir lok síðasta árs af af bandaríska dómsmálaráðuneytinu fyrir þátttöku í tugmilljarða fjársvikamáli. Bakhshi var handtekinn á JFK-flugvellinum í New York í byrjun desember 2018, nýkominn frá London. Fjársvikamálið sem Bakhshi er ákærður fyrir er ótengt störfum hans fyrir GAMMA en hann mun hafa látið af störfum fyrir GAMMA snemma á árinu 2018.

Viðskiptasaga Bakhshi með Íslendingum er meira en tíu ára gömul. Hann var ráðinn til að stýra starfsemi íslenska fjárfestingafélagsins Askar Capital á Indlandi árið 2007. Áður starfaði hann hjá bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns. Bakhshi sat í stjórn Mercantile Ports & Logistics sem skráð er í kauphöllina í London og vinnur að innviðauppbyggingu á Indlandi. Hann sagði sig úr stjórninni Mercantile Ports & Logistics eftir handtökuna. Við það tilefni lýsti Bakhshi sig saklausan af ákæruefninu.

Aflað milljarða með blekkingum 

Í tilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu frá því í desember 2018 segir að Bakhshi og samverkamenn hans hafi ætlað sér að svíkja út hundruð milljónir dollara út úr fjárfestum, sem samsvarar tugum milljarða íslenskra króna. Þeir eru sagðir hafa haft uppi áform um að fá fjárfesta með sér í að kaupa og afskrá einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skráð var á AIM markaðinn í kauphöllinni í London. Í viðskiptunum tókst þeim að láta líta út fyrir að fyrirtækið væri yfir 300 milljóna dollara virði sem samsvarar um 37 milljörðum króna. Fyrirtækið fór í þrot í mars 2018 og var þar með orðið verðlaust. Rannsókninni var stýrt af bandarísku alríkislögreglunni FBI.

Létu kaupa fyrirtæki sem ekki voru til

Hinum ákærðu er gefið að sök að hafa látið hið skráða heilbrigðisfyrirtæki sækja sér tugi milljóna dollara fjármagn með það yfirlýsta markmið að kaupa ýmis félög sem yrðu rekin sem dótturfélög fyrirtækis. Í raun voru mörg fyrirtækjanna sem til stóð að kaupa ekki til eða höfðu ekki nema brot af þeim tekjum sem upp var gefið. Féð sem safnaðist og verið ætlað til fyrirtækjakaupa hefði í raun verið fært inn á reikninga sem stýrt var af hinum ákærðu. Það fé hafi verið nýtt til ýmis sviksamlegs athæfis. Meðal annars hafi fjármunir verið millifærðir af reikningum undir stjórn hinna ákærðu inn á fyrirtækið sjálft með það að markmiði að ýkja veltutölur fyrirtækisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • FME vill herða kröfur um hvaða verkefnum lífeyrissjóðir mega útvista.
  • Rætt um hvernig Stanford háskóli græddi 5 milljarða á uppgötvunum.
  • Gangur kjaraviðræðna opinberra starfsmanna skoðaður.
  • Rekstur helstu hótelanna á Íslandi er skoðaður í kjölinn.
  • Pétur Már Halldórsson framkvæmdastjóri Nox Medical er í ítarlegu viðtali.
  • Sagt er frá niðurstöðu dómnefndar á bíl næsta árs.
  • Keppendur til úrslita í Gullegginu eru kynntir til sögunnar og hvað er í húfi.
  • Rætt er við formann FKA Framtíðar um framtíðina hjá nýjum vinnuveitenda.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um alþjóðlega stöðu evrunnar.
  • Óðinn skrifar um frelsara mannkyns.
Stikkorð: Gamma FBI New York fjársvik Pavan Bakhshi