Uppgjör FL Group fyrir fyrsta fjórðung var yfir væntingum greiningardeildar Glitnis en hann nam 15,1 milljarði króna, samanborið við spá greiningardeildarinnar um 11,9 milljarða króna hagnað.

?Flækjustig fjárfestinga og rekstrarreiknings torveldar spár og samanburð á einstökum liðum rekstrarreiknings og spáliða,? segir greiningardeildin.

Hún segir afkomu af fjárfestingastarfsemi vel ásættanlega, hún var 15,6 milljarðar króna en spá greiningardeildar var 13 milljarðar króna. Rekstrarkostnaður var 884 milljónir króna en greiningardeildin spáði 700 milljónum.

Hagnaður fyrir skatta nam 14,7 milljörðum króna en 400 milljón króna jákvæð skattfærsla eykur hagnaði en greiningardeildin spáði að skattaliðurinn væri neikvæður um 300 milljónir króna.


?Miðað við stöðu eigin fjár FL Group í lok fyrsta fjórðungs er V/I hlutfall félagsins nú 1,63 sem verður að teljast nokkuð hátt fyrir félag eins og FL Group. Eignasafn, rekstrarsagan og sterk eiginfjárstaða félagsins réttlætir álag á innra virði félagsins. Á hinn bóginn má nefna að veruleg markaðsáhætta er tengd félaginu þar sem verðbréfaeign (brúttó) er 2,5-falt meiri en eigið fé félagsins.

Þar að auki má áætla að árlegur fjármagnskostnaður félagsins liggi á bilinu 20-25 milljarða króna. Þannig má gróflega reikna að ef verðbréfaeign félagsins (brúttó) myndi tapa 10% af verðgildi sínu á einu ári og að félagið greiddi 20 milljarða króna í fjármagnskostnað þá myndi félagið tapa um 40% af eigin fé sínu (annað óbreytt). Það er því mikilvægt að fjárfestar séu meðvitaðir um áhættuna sem fylgir fjárfestingu í FL Group,? segir greiningardeildin.

Hún telur að að eignasafn FL Group sé mjög sterkt. ?Eignarhlutir FL Group í Glitni og Commerzbank slá hátt í 200 milljarða króna að markaðsvirði. Eignarhlutir í AMR Corporation og Finnair gefa spennandi möguleika en meiri markaðsáhætta fylgir þeim hlutum. Heilt yfir teljum við eignasafn FL Group sterkt og að það gefi möguleika á ásættanlegri ávöxtun í ár,? segir greiningardeildin.