„Útgáfa ríkisbréfanna er mjög jákvæð aðgerð og í raun er slæmt að þetta var ekki gert fyrr því seinkunin hefur valdið óþarfa skjálfta á gjaldeyrismarkaði, sem var nægur fyrir,“ segir Edda Rós Karlsdóttir, yfirmaður greiningardeildar Landsbankans um aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem voru kynntar í gær.

Ennfremur segir Edda að slæmt sé að ekki fylgi upplýsingar um hvenær þessu verði hrint í framkvæmd.

Varðandi aðgerðir til að blása lífi í fasteignamarkaðinn segir Edda:

„Verið er að taka skref í átt að því að gera Íbúðarlánasjóð að heildsöluapparati, sem er gott fyrir kerfið í heild. Það er þó mjög mikilvægt að lánin verði á markaðskjörum, en ekki á niðurgreiddu verði“.

Edda segir að einnig sé verið að mæta þeim athugasemdum um Íbúðarlánasjóð sem hafa komið frá EFTA.

Ríkisstjórnin, aðilar vinnumarkaðar og sveitarfélaga komu saman á fundi í gær þar sem kynntar voru aðgerðir til að bregðast við yfirvofandi efnahagsvanda. Markmið aðgerðanna er að auka lausafjárstöðu bankakerfisins og blása þar með lífi í fasteignamarkaðinn.

Meðal annars verða stofnaðir tveir nýir lánaflokkar hjá Íbúðarlánasjóði og gefin út stutt ríkisbréf á innlendum markaði.