Vantraust eigenda bílapartasölu í garð fjármálastofnana kom þeim í klandur hjá Skattinum en þeir höfðu geymt sjóðseign einkahlutafélags síns í peningaskáp á heimili sínu. Skatturinn taldi það þýða að þar væri á ferð tekjur af hlutareign þeirra í félagi sínu og staðfesti yfirskattanefnd þá niðurstöðu. Afleiðingin er sú að tekjuskattsstofn hvors um sig hækkaði um tæplega 11 milljónir króna samanlagt vegna gjaldáranna 2016 og 2017.

Málavextir eru þeir að í skattframtali ársins 2015 taldi félagið fram handbært fé upp á tæplega 22,5 milljónir króna. Óskaði Skatturinn skýringa á því haustið 2018 þar sem upphæðin kæmi ekki heim og saman við upplýsingar sem fyrir lægju. Forsvarsmenn félagsins, kærendur til yfirskattanefndar, svöruðu bréfunum um hæl og sögðu að félagið ætti 1.738 þúsund á fjórum bankareikningum en 20,7 milljónir króna væru í formi reiðufjár sem geymt var í peningaskáp á heimili þeirra „öryggisins vegna“.

Skatturinn svaraði því með öðru bréfi þar sem kom fram að ekki yrði annað séð en að þessum geymsluhætti yrði jafnað til ólögmætrar lánveitingar félags til hluthafa. Engin leið væri fyrir þriðja aðila til að ganga úr skugga um að fjármunirnir væru á téðum stað og því ekki hægt að líta öðruvísi á málið en að fjármunirnir hefðu verið afhentir eigendunum.

Í boðunarbréfi sínu, dagsettu í júní 2019, sagði Skatturinn að í lok árs 2014 hefði sjóðurinn numið 20,7 milljónum króna, 32,6 milljónum króna ári síðar og loks tæpum 38 milljónum í árslok 2016. Mismuninn milli ársloka 2016 og 2014, rúmlega sautján milljónir króna, ætlaði Skatturinn að telja eigendunum til tekna að viðbættu 25% álagi á skattstofninn.

Vantreystu bönkum fyrir fjármunum

Eigendurnir andmæltu þessu. Þeir fengju rífleg laun hjá félaginu og töldu að engu máli skipti hver vörslumaður fjármunanna væri heldur aðeins hver væri eigandi þeirra. Fólkið vantreysti „bönkum til að fara með fjármuni“ en í því samhengi var vísað til þess að í efnahagshruninu hefðu íslensk fjármálafyrirtæki fallið eins og spilaborgir. Það er skemmst frá því að segja að þessi andmæli nýttust lítið og hratt Skatturinn boðuðum breytingum í framkvæmd.

Sú niðurstaða var kærð til yfirskattanefndar og þess krafist að breytingar Skattsins yrðu felldar úr gildi. Röksemdirnar voru þær sömu og á fyrri stigum. Yfirskattanefnd féllst hins vegar ekki á málatilbúnað eigendanna og fannst ýmislegt í málinu benda til þess að hann væri ekki alveg sannleikanum samkvæmur.

„Hafa engin áreiðanleg gögn komið fram í málinu til stuðnings staðhæfingum kærenda um varðveislu fjármuna [félagsins] í sjóði [þess] á því tímabili sem um ræðir og getur staðfesting bókara félagsins í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 28. nóvember 2018, um varðveislu fjármuna í peningaskáp engu breytt í þessu sambandi. Þá þykja skýringar kærenda um vantraust til bankakerfis ekki sannfærandi í ljósi þess sem liggur fyrir í gögnum málsins um notkun bankareikninga kærenda og [félagsins],“ segir í úrskurði yfirskattanefndar.

Þá taldi nefndin lagaskilyrði til lækkunar fjórðungsálagsins niður í 15% ekki vera til staðar í málinu. Niðurstaða Skattsins stendur því óhögguð.