Að sögn Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, er það ekki vegna kaupa Landsbankans á gjaldeyri sem krónan hefur verið að veikjast að undanförnu, en rætt er við hann í Fréttablaðinu í dag.

„Krónan hreyfðist aðeins í kringum áramótin þegar við vorum að kaupa en hún hefur líka haldið áfram að hreyfast síðan. Það eru aðrir aðilar sem eru að hafa áhrif á það. Aðilar sem hafa þurft að endurfjármagna sig til skamms tíma. Við erum ekki í þeirri stöðu. Í dag er það okkar hagur að krónan styrkist vegna þess að við eigum svo mikið af lausu fé í erlendri mynt. Við getum borgað öll innlán í erlendri mynt og eigum þar fyrir utan einhverja tugi milljarða króna.“