Dregið hefur úr sölu áfengis í takt við hækkandi verðlag að því er kemur fram í samantekt rannsóknarseturs verslunarinnar. Verð á áfengi er nú 17,8% hærra en fyrir ári síðan og salan dróst saman á sama tímabili um 15% að magni til. Um áramótin hækkaði áfengisgjald um 10% og virðisaukaskattur á áfengi um eitt prósentustig. Þessi gjöld hafa vafalítið haft áhrif á sölu áfengis í janúar. Langt er síðan svo lítil áfengissala hefur verið í einum mánuði.

Leita þarf allt aftur til janúar 2006 til að finna álíka raunveltu í sölu áfengis, en það ár var einum laugardegi færra í janúar en á þessu ári.