Hækkun á hráolíu virðist engan enda ætla að taka en verðið fór yfir 109 bandaríkjadali á mörkuðum í New York í morgun. Þegar þetta er skrifað, kl. 12:40 er verðið á olíu 108,75 bandaríkjadalir.

Líkt og í gær er lækkandi gengis bandaríkjadals kennt um en dalurinn hefur lækkað gagnvart japanska jeninu og eins evrunni. Þá eru fjárfestar enn að kaupa olíu til að tryggja fjármagn sitt í dollurum.

Búist er við stýrivaxtalækkun þann 18. mars næstkomandi og má þá gera ráð fyrir að bandaríkjadalur lækki enn frekar.