Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri hönnunarfyrirtækisins Tulipop, en velta félagsins á fyrsta ársfjórðungi nam þrefaldri veltu þess allt síðasta ár.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri og annar tveggja stofnenda, segir að á síðasta ári hafi verið ákveðið að skerpa fókusinn og draga seglin saman á öllum sviðum nema þeim sem lúta að teiknimynd fyrirtækisins og það sé að skila sér núna.

„Á síðasta ári lögðum við alla okkar einbeitingu og krafta í nýja teiknimyndaseríu Tulipop, sem eðlilega varð til þess að tekjur lækkuðu á öðrum sviðum, en það er mjög ánægjulegt að sjá að sú vinna er að skila sér," segir Helga.

Fjármögnun vegna teiknimyndaseríunnar - sem telur 13 þætti, hver 7 mínútur að lengd - lauk síðastliðið haust og er stefnt á að hefja sýningar hér á landi í desember.

„Þau stóru tíðindi urðu í rekstri félagsins núna síðastliðið haust að við náðum að ljúka fjármögnun teiknimyndaseríunnar sem við höfum verið lengi með í undirbúningi. Síðustu ár höfum við náð saman teymi einvalaliðs íslenskra og evrópskra aðila sem eru reyndir í þróun og framleiðslu barnaefnis fyrir alþjóðlegan markað. Síminn tryggði sér sýningarrétt hér á landi auk þess sem sjónvarpsstöðvar frá sex öðrum löndum hafa staðfest kaup á seríunni, þar á meðal norska og sænska ríkissjónvarpið. Það hjálpaði okkur mikið að fá stuðning frá öðrum mikilvægum aðilum í þessum geira og má þar fyrst nefna Kvikmyndasjóð, sem veitti verkefninu veglegan framleiðslustyrk og í kjölfarið fengum við veglegan styrk frá hinum virta sjóði Nordisk film & TV fond. Þá náðum við einnig mjög hagstæðum samningum við teiknimyndastúdíó á Spáni, þar sem er mjög hagstætt umhverfi fyrir teiknimyndaframleiðslu, og fengum stuðning þaðan, sem í raun gerði það að verkum að við náðum að fara af stað með þetta stóra verkefni með þeim hætti að við næðum endum saman fjárhagslega," segir hún.

Reikna með hallalausum rekstri

Tekjur Tulipop-samstæðunnar námu um 36 milljónum króna á síðasta ári og drógust saman um 59% frá árinu 2019. Rekstrartap (EBIT) nam tæpum 86 milljónum króna samanborið við tæpar 133 milljónir árið áður. Samstæðan tapaði um 106 milljónum eftir skatt, en tap ársins 2019 nam um 133 milljónum.

Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 41 milljón króna í árslok, samanborið við jákvæðar 57 milljónir ári fyrr. Skuldir jukust um 71% á milli ára, úr 185 milljónum króna í 315 milljónir. Eignir samstæðunnar námu 274 milljónum króna í árslok og jukust um tæp 14%. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar reyndist því neikvætt um 15% um áramót í samanburði við jákvæð 24% ári fyrr.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi er miklum viðsnúningi það sem af er ári lýst. Þar segir að gert sé ráð fyrir að rekstur félagsins verði hallalaus á árinu 2021 og að félagið skili hagnaði á árinu 2022. Miðað við áætlanir sé fjármögnun samstæðunnar tryggð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .