Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa ekki viljað opinbera tillögur sínar um losun gjaldeyrishafta. Sérfræðingateymi á vegum samtakanna mun þó hefja vinnu með starfsmönnum Seðlabankans sem miða að því að losa um höftin í skrefum.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um hér á vb.is í dag kynntu SFF ásamt Samtökum atvinnulífsins (SA) tillögur sínar fyrir forsvarsmönnum Seðlabankans og stjórnmálamönnum í gær. Sérfræðingateymi á vegum SFF hefur í sumar unnið að tillögum sem miða að því að aflétta gjaldeyrishöftum í skrefum.

Viðskiptablaðið leitaði eftir því að fá tillögurnar afhentar en samkvæmt upplýsingum frá SFF var ákveðið að kynna hugmyndirnar fyrir stjórnvöldum og Seðlabankanum og efna til umræðu um þær og þá möguleika sem eru í stöðunni, áður en tillögurnar yrðu gerðar opinbera.

Ekki hefur náðst í Guðjón Rúnarsson, framkv.stjóra SFF í dag. Þó hafa einstaka stjórnarmeðlimir SFF ekki viljað tjá sig ítarlega um tillögurnar en segjast þó vonast til þess að stjórnvöld og Seðlabankinn taki tillit til þeirra.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins samþykktu forsvarsmenn Seðlabankans á fundinum í gær að efna til samstarfs við fyrrnefnt sérfræðingateymi um það hvernig losa megi um gjaldeyrishöftin. Framundan eru því sameiginlegir vinnufundir starfsmanna Seðlabankans og teymis á vegum SFF. Rétt er þó að minna á að það er Alþingi sem tekur lokaákvörðun um afnám haftanna – og að sama skapi ef herða skal höftin eins og ítrekað hefur verið gert hingað til.