*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 15. júlí 2019 10:35

Vill 6 milljarða fyrir 300 ríkisjarðir

Þingmaður vill að sett verði af stað skipulagt átak í að selja ríkisjarðir til bæði ábúenda og annarra áhugasamra.

Ritstjórn
Haraldur Benediktsson hefur verið þingmaður Norðvesturskjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2013, en þar áður var hann formaður Bændasamtaka Íslands.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill skipulagt átak í sölu hinna 300 bújarða sem eru í ríkiseigu enda valdi óvissan um framtíð þeirra stöðnun á þeim að því er Fréttablaðið segir frá.

Telur hann að hægt væri að fá um 6 milljarða fyrir sölu á jörðunum sé miðað við að meðalverð þeirra sé um 20 milljónir króna. Hann segist ekki vilja að jarðirnar séu seldar á einhverju gjafvirði eða of hratt sem skapi offramboð á markaði.

„Það er engin ástæða til að halda þessum jörðum. [...]Ekki frekar en að ríkið ætti íbúðir í stórum stíl eða atvinnuhúsnæði,“ segir Haraldur og bendir á erfiðleika bænda með að skapa sér framtíðarsýn um nýtingu því núverandi staða skapi óvissu. „Búskapur er í stöðnun á þó nokkrum búum vegna þess að það fást ekki svör frá ríkinu. Fólk þarf að reisa fjós og endurnýja ýmislegt.“

Halda eigi eftir þeim sem flokkaðar hafa verið sem sérstakar vegna náttúrufars eða sögu

Haraldur segir engann ágóði fyrir ríkið að eiga flestar þessara jarða, þó halda ætti þeim sem hafa sérstaka stöðu vegna náttúrufars eða sögu, sem nú þegar sé til góð flokkun á.

Í heildina á ríkið um 450 jarðir á Íslandi, margar tilkomnar vegna samnings ríkisins við íslensku þjóðkirkjuna frá árinu 1907, sem endurnýjaður var 2007, um að í staðinn fyrir að fá afhent það sem þá nam um þriðjungi alls lands á Íslandi þyrfti ríkið að greiða prestum laun.

Jafnframt er stór hluti til kominn vegna uppkaupa jarðarsjóðs ríkisins sem keypti upp fjölda jarða undir lok síðustu aldar þegar margir bændur fóru í gegnum erfiðleika. Um 150 af þessum jörðum eru í umsjá ýmis konar ríkisstofnana, eins og Skógræktar ríkisins, og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, en síðan eru um 300 venjulegar bújarðir út um allt land.

Eru flestar þeirra í ábúð og leigðar út en sumar eru eyðijarðir. Segir Haraldur að eftirspurn sé meðal langtímaleigutaka að fá að kaupa jarðirnar, og ætti það að vera fyrsta skrefið. Næsta skref væri að selja þær jarðir sem eru í nytjum frá öðrum búum, og loks þriðji þær jarðir sem farið hafa úr ábúð. „Því miður hafa þær jarðir verið lagðar í eyði því að ábúðakerfið hefur ekki verið að virka í mörg ár.“