Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,12% í mars og er 252,3 stig, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 233,6 stig og hækkaði um 1,17% frá því í febrúar.

Hagstofan segir að vetrarútsölum sé nú víðast lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 16,9% (vísitöluáhrif 0,72%). Verð á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,1% (0,19%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,8%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,4% sem jafngildir 5,6% verðbólgu á ári (2,8% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).