Í skýrslu sem Deloitte vann fyrir skiptastjóra Wow air kemur fram að félagið hafi verið orðið ógjaldfært um mitt ár 2018. Þetta kom fram á skiptafundi Wow air sem hófst klukkan eitt í dag á Hilton Nordica.

Þá telja skiptastjórar vísbendingar um að eigið fé Wow hefði í raun átt að vera neikvætt um mitt ár 2018 áður en skuldabréfaútboð félagsins hófst. Þá hafi upplýsingar, gögn og áætlanir um fjárhagsleg málefni félagsins, rekstur, efnahag og áætlanir verið ófullnægjandi og ekki gefið raunsanna mynd af rekstri og efnahag Wow. Þá virðist þáttaka Skúla í skuldabréfaútboðinu hafa verið fjármögnuð með láni frá Arion banka, sem ekki er víst hvort öðrum þáttakendum í skuldabréfaútboðinu hafi verið kunnugt um.

Sjá einnig: Milljarður til í þrotabúi Wow

Bent er á að stefnt hafi í að Wow air tækist ekki að að safna lágmarksupphæð í skuldabréfaútboði þess í september. Því hafi verið leitað til Arion banka sem tók þátt í útboðinu sem hafi skráð sig fyrir 4,3 milljónum evra gegn því að yfirdráttaskuld Wow við Arion banka yrði greidd upp.

Þá kom í ljós við yfirferð krafna að heildarfjárhæð krafna sé 151 milljarður króna en ekki 138 milljarðar króna.

Wow greiddi húsaleigu Skúla

Þegar hefur verið krafist riftunar á greiðslu til Títan, fjárfestingafélags Skúla Mogensen, vegna greiðslur upp á 108 milljónum króna auk vaxta. Málið snýst um arðgreiðslu fyrir Cargo Express sem Skúli seldi Wow sumarið 2018. Greiðslan átti að mestu að fara fram með hlutafé í Wow en einnig peningagreiðslu. Cargo Express greiddi Wow arð upp á 108 milljónir króna 6. febrúar 2019 sem greiða átt til Títan þann 30. apríl samkvæmt kaupsamningi. Samdægurs var fjárhæðin hins vegar lögð inn á reikning Títan. Skiptastjórar telja þetta ekki standast lög enda greiðslugeta Wow air skert á þessum tíma og greiðslan til eiganda félagsins fyrir gjalddaga.

Wow air greiddi leigu fyrir íbúð Skúla Mogensen í London. Húsaleiga nam 37 milljónum króna frá því í mars 2017. Skiptastjórar búsins skoða nú að höfða riftunarmál vegna þessa.

Skiptastjórar Wow air segja 1,1 milljarð vera til í þrotabúi Wow air sem stendur. Þrjár milljónir voru til á reikningum Wow þegar það féll í lok mars á þessu ári.