Ég fór í klippingu í Kópavoginum ekki alls fyrir löngu, Klippt og skorið í Hamraborg. Þar er ekki bara Séð og heyrt í biðstofunni eða Bo Bedre. Ó nei. Þar liggja gömul Four Four Two fótboltablöð í bunkum. Sem gerir þessa hárgreiðslustofu spennandi fyrir fótboltaáhugamenn.

Ég fór að lesa síðast þegar ég fór og rakst þá á umfjöllun þar sem Clarence Seedorf, Hollendingurinn hjá AC Milan, svaraði spurningum leseanda. Ein spurningin var svona: Hver er besti leikmaður sem þú hefur leikið með eða séð spila? Svarið var svona: "Ronaldo, bæði sá besti sem ég hef leikið með og séð. Ég sá hann þegar hann hljóp á 3.000 kílómetra hraða, hjá PSV. Hann var einfaldlega óstöðvandi. Jafnvel núna [Hann var félagi hans hjá AC Milan á þeim tíma þegar þetta birtist innskot. blm.], þrátt fyrir öll meiðslin, sér maður hversu stórkostlegur leikmaður hann er. Það kemst enginn nálægt honum í mínum huga." Þetta minnti mig á myndband sem ég horfði á fyrir skömmu. Það er að finna á Youtube vefnum. Þar er Ronaldo 17 ára gamall, í sínum

Ronaldo
Ronaldo
© Aðsend mynd (AÐSEND)
fyrsta opinbera landsleik, gegn Íslandi 4. maí 1994. Leikmenn Íslands réðu ekkert við Ronaldo. Hann bókstaflega tætti þá í sig.  Liðið hjá Íslandi, undir stjórn Ásgeirs Elíassonar, var samt ágætlega mannað svona miðað við Ísland. Byrjunarliðið: Sigurður Jónsson, Arnór Guðjohnsen fyrirliði, Ólafur Þórðarson, Rúnar Kristinsson, Eyjólfur Sverrisson, Hlynur Stefánsson, Þorvaldur Örlygsson, Izudin Daði Dervic, Kristján Jónsson, Arnar Gunnlaugsson og Birkir Kristinsson.

Ég ákvað, þegar ég var að skrifa þennan pistil, að slá á þráðinn til fyrirliðans og spyrja hvort hann myndi eitthvað eftir Ronaldo úr leiknum. Arnór sagði þetta: "Þessi leikur var settur upp svo að Brasilía gæti slátrað okkur, rétt fyrir HM í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir 3-0 tap, sem hefði hæglega getið verið stærra, þá komum við þokkalega á óvart með ágætis leik. Ronaldo var þarna í sínum fyrsta leik. Hafði gríðarlegan hraða, styrk og tækni, bókstaflega allt. Daði Dervic var í því að dekka hann í leiknum, oftast nær. Ég man alltaf eftir myndbroti sem ég sá í íþróttaþætti í Svíþjóð úr þessum leik, en ég var að spila þar á þessum tíma. Svíarnir voru að velta þessum gutta, Ronaldo, fyrir sér eftir leikinn gegn okkur. Svíþjóð var með Brasilíu í riðli á HM '94. Í myndbrotinu sást Ronaldo, þar sem hann var með boltann, taka snögga gabbhreyfingu án þess þó að snerta boltann nokkuð. Það sást í bakhlutann á Daða Dervic. Hann hvarf af skjánum við gabbhreyfinguna, eins og hendi væri veifað! Þetta er ógleymanlegt. Ég hef heyrt lýsingar frá Eiði Smára [syni Arnórs innsk. blm.] frá því að þeir léku saman hjá PSV. Þá gat Ronaldo bókstaflega gert það sem hann vildi og gerði menn hvað eftir annað orðlausa. Menn göptu bara!"

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 22. september.