*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Ásta Sóllilja
27. september 2019 13:39

Vísindastarf í þágu loftslagsmála

Tækniyfirfærsla getur leikið lykilhlutverk í aðgerðum gegn loftslagsvánni.

AFP

Samstarfsvettvangi atvinnulífsins og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir var formlega hleypt af stokkunum í síðastliðinni viku. Markmið samstarfsvettvangsins er að „Bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði.”

Í ræðu sinni af þessu tilefni minnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á mikilvægi rannsókna, nýsköpunar og tækni við lausn loftslagsvandans.

Við þurfum að breyta hegðun okkar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er jafnframt nauðsynlegt að finna upp hreinni tækni til að leysa mengandi tækni af hólmi svo mögulegt sé að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar skipta háskólar og rannsóknarstofnanir lykilmáli og því gleðiefni að ríkisstjórnin hafi ákveðið veita auknu fjármagni til rannsókna á loftslagsmálum.

En aukin ríkisframlög duga ekki ein og sér. Það þarf líka að sjá til þess að vísindaniðurstöður verði hagnýttar, skili sér út í atvinnulífið og skapi verðmæti í samfélaginu.

Auðna tæknitorg er nýstofnuð tækniyfirfærsluskrifstofa í eigu allra háskólanna og helstu rannsóknarstofnana landsins. Hlutverk Auðnu felst í því að brúa bilið á milli vísindasamfélagsins og atvinnulífsins. Auðna tæknitorg aðstoðar við hugverkavernd, greiningu á markaðslandslagi, kynningu á uppfinningum fyrir fjárfestum og aðstoðar við að ýta sprotafyrirtækjum úr vör.

Tækniyfirfærsla getur leikið lykilhlutverk í aðgerðum gegn loftslagsvánni. Með þetta í huga hefur Auðna tæknitorg ásamt Aalto háskólanum í Finnlandi haft frumkvæði að formlegu samstarfi tækniyfirfærsluskrifstofa á Norðurlöndum. Markmiðið er að fá yfirsýn um lausnir í vísindaumhverfi Norðurlandanna sem geta nýst í loftslagsmálum. Samstarfinu verður hrundið af stað á ráðstefnu Arctic Circle í byrjun næsta mánaðar.

Höfundur, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.