Stórhýsi í Regent's Park í London hefur verið sett á sölu eftir að tæplega 26 milljarða króna lán sádi-arabísks eiganda hennar fór í vanskil. Financial Times greinir frá.

Fasteignasalar sem sjá um söluna vonast til setrið fari á allt að 250 milljónir punda, eða sem nemur 43 milljörðum króna. Viðmælandi FT með þekkingu á húsnæðismarkaðnum í London segir ótrúlegt að sjá 1,6 hektara lóð í Regent's Park fara á sölu.

Abdullah bin Khalid Al Saud, meðlimur konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu og fulltrúi Sáda hjá Sameinuðu þjóðunum, er skráður einn af raunverulegum eigendum eignarinnar ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum.

Skilanefnd tók við setrinu í kjölfar þess að 150 milljóna punda lán, sem var veitt með veði í húsinu auk annara eigna á borð við íbúð í New York og einkaþotu, fór í vanskil. Sala á hinu 205 ára setri, sem nefnist The Holme, er talin auðveldasta leiðin til að greiða upp lánið.

Í umfjöllun FT segir að ýmsir meðlimir konungsfjölskyldunnar hafi reynt að láta lítið á sér bera eftir að krónprinsinn Mohammed bin Salman þjarmaði að ýmsum meðlimum fjölskyldunnar árið 2017.

Dýrasta hús London í dag er 45 herbergja glæsihýsið að 2-8a Rutland Gate við Hyde Park sen stofnandi kínverska fasteingafélagsins Evergrande keypti árið 2020 fyrir 210 milljónir punda.