Myndlistarmaðurinn Haukur Dór fagnar fimmtíu ára starfsafmæli sínu með einkasýningu hjá Gallerí Fold sem opnar um helgina en sýningin mun standa til 10. júní.
Sýningin ber heitið Ljósa hliðin og opnar kl. 14 laugardaginn 20.maí.
Um er að ræða fimmtu einkasýningu Hauks hjá galleríinu en Haukur hefur haldið á fimmta tug einkasýninga á Íslandi. Sýningarstjóri er Iðunn Vignisdóttir.
Haukur, sem er fæddur 1940, lagði stund á myndlistarnám í kvöldskóla í Myndlistaskólanum í Reykjavík á árunum 1958-1962. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu á Mokka árið 1963 fyrir fimmtíu árum síðan.
Sama ár hélt Haukur til Edinborgar þar sem hann lærði myndlist og keramikgerð við Edinburgh College of Art árin 1962-1964. Þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar í Konunglegu dönsku listaakademíuna þar sem hann stundaði nám á árunum 1965-1967.
Haukur stundaði síðar framhaldsnám við Visual Art Center í Maryland, Bandaríkjunum.
„Árið 1965 tók Haukur Dór þátt í fyrstu sýningu SÚM hópsins en sneri sér svo að leirlistinni. Lengi vel rak hann keramikverkstæðið og verslunina Kúnígúnd ásamt Ásrúnu Jónsdóttur konu sinni og Guðrúnu Magnúsdóttur, síðar setti hann upp keramikverkstæði í Danmörku, á Spáni og í Bandaríkjunum. Í keramiklistinni var Haukur Dór mikilvirkur brautryðjandi og í dag eru keramikhlutir hans vinsælir meðal safnara. Eftir mörg ár í keramikgerð lagði Haukur þá vinnu á hilluna og helgar sig nú alfarið málverkinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Gallerí Fold.

„Málverk Hauks Dórs eru kröftug, tilfinningarík og einkennast af ákveðinni litapallettu. Áður voru litirnir sterkir og skærir en í nýjustu verkum hans eru þeir ljósari, líkt og skeggið sem hefur hvítnað með árunum. Meiri ró hefur færst yfir myndflötinn og hvíti liturinn fær meira vægi en oft áður. Líkt og hver árstíð ber með sér ákveðna liti, minna verk Hauks á veðrabrigði árstíðanna. Dökkir og gráir litir vetrarins, ljósgrænn og bleikur litur vorsins, sterkrauður litur miðnætursólarinnar og brúnir litir haustsins. Stundum er sagt að það sé farið að hausta að þegar líður á æviskeiðið, en það fjarri því að haustlitirnir einkenni þessa sýningu Hauks Dórs, litirnir eru ljósir og léttir og því frekar að hún beri hún með sér vorblæinn. Að því sögðu má vel leiða að því líkur að Haukur Dór eigi nóg eftir og sé hvergi nærri hættur í listsköpuninni,“ segir ennfremur fréttatilkynningunni