Mynd­listar­maðurinn Haukur Dór fagnar fimm­tíu ára starfs­af­mæli sínu með einka­sýningu hjá Gallerí Fold sem opnar um helgina en sýningin mun standa til 10. júní.

Sýningin ber heitið Ljósa hliðin og opnar kl. 14 laugar­daginn 20.maí.

Um er að ræða fimmtu einka­sýningu Hauks hjá galleríinu en Haukur hefur haldið á fimmta tug einka­sýninga á Ís­landi. Sýningar­stjóri er Iðunn Vignis­dóttir.

Haukur, sem er fæddur 1940, lagði stund á mynd­listar­nám í kvöld­skóla í Mynd­lista­skólanum í Reykja­vík á árunum 1958-1962. Hann hélt sína fyrstu einka­sýningu á Mokka árið 1963 fyrir fimm­tíu árum síðan.

Sama ár hélt Haukur til Edin­borgar þar sem hann lærði mynd­list og keramik­gerð við Edin­bur­gh College of Art árin 1962-1964. Þaðan hélt hann til Kaup­manna­hafnar í Konung­legu dönsku lista­akademíuna þar sem hann stundaði nám á árunum 1965-1967.

Haukur stundaði síðar fram­halds­nám við Visu­al Art Center í Mary­land, Banda­ríkjunum.


„Árið 1965 tók Haukur Dór þátt í fyrstu sýningu SÚM hópsins en sneri sér svo að leir­listinni. Lengi vel rak hann keramik­verk­stæðið og verslunina Kúnígúnd á­samt Ás­rúnu Jóns­dóttur konu sinni og Guð­rúnu Magnús­dóttur, síðar setti hann upp keramik­verk­stæði í Dan­mörku, á Spáni og í Banda­ríkjunum. Í keramik­listinni var Haukur Dór mikil­virkur braut­ryðjandi og í dag eru keramik­hlutir hans vin­sælir meðal safnara. Eftir mörg ár í keramik­gerð lagði Haukur þá vinnu á hilluna og helgar sig nú al­farið mál­verkinu,“ segir í frétta­til­kynningu frá Gallerí Fold.

„Mál­verk Hauks Dórs eru kröftug, til­finninga­rík og ein­kennast af á­kveðinni lita­pallettu. Áður voru litirnir sterkir og skærir en í nýjustu verkum hans eru þeir ljósari, líkt og skeggið sem hefur hvítnað með árunum. Meiri ró hefur færst yfir mynd­flötinn og hvíti liturinn fær meira vægi en oft áður. Líkt og hver árs­tíð ber með sér á­kveðna liti, minna verk Hauks á veðra­brigði árs­tíðanna. Dökkir og gráir litir vetrarins, ljós­grænn og bleikur litur vorsins, sterkrauður litur mið­nætur­sólarinnar og brúnir litir haustsins. Stundum er sagt að það sé farið að hausta að þegar líður á ævi­skeiðið, en það fjarri því að haust­litirnir ein­kenni þessa sýningu Hauks Dórs, litirnir eru ljósir og léttir og því frekar að hún beri hún með sér vor­blæinn. Að því sögðu má vel leiða að því líkur að Haukur Dór eigi nóg eftir og sé hvergi nærri hættur í list­sköpuninni,“ segir enn­fremur frétta­til­kynningunni