Eric Schimdt, fyrrum forstjóri og stjórnarformaður Google, hefur fest kaup á Echanted Hill, eftirsóttu ónýttu landsvæði í Beverly Hills, fyrir 65 milljónir dala, eða sem nemur 8,4 milljörðum króna. Eignin var áður í Paul Allen, meðstofnenda Microsoft, sem lést árið 2018. WSJ greinir frá.

Kaupsamningurinn, sem var undirritaður í desember, markar lokin á þriggja ára söluferli á 120 ekra lóðinni sem var fyrst auglýst til sölu fyrir 150 milljónir dala, eða 19,4 milljarða króna, árið 2018.

Fasteignasalar segja að um sé að ræða eina af stærstu óskipulögðu lóðum eftir í Beverly Hills með útsýni út á sjó. Á lóðinni er hægt að hanna húsaþyrpingu sem getur samtals orðið allt að 24 þúsund fermetrar að stærð.

Fasteignin hýsti á árum áður 20 herbergja herragarðshús, byggt af handritshöfundinum og leikstjóranum Frances Marion og eiginmanni hennar á þriðja áratugnum. Nágranni þeirra, leikkonan Greta Garbo, stakk upp á nafninu Enchanted Hill fyrir lóðina, samkvæmt bókinni „The Legendary Estates of Beverly Hills“, skrifuð af einum af fasteignasölunum sem sá um söluna. Boð á Enchanted Hill þótti merki um formlega innkomu í Hollywood samfélagið.

Á nú verðmætt fasteignasafn í Kaliforníu

Paul Allen keypti lóðina í lok tíunda áratugarins fyrir tæplega 20 milljónir dala. Hann lét rífa niður Marion húsið og var með áform um uppbyggingu sem hann lét aldrei af verða. Allen setti eignina á sölu nokkrum mánuðum áður en hann lést. Enchanted Hill var að lokum selt af dánarbúi Allen.

Talsmaður Schmidt vildi lítið tjá sig um viðskiptin annað en að auðjöfurinn væri aðdáandi af sögulegum fasteignum og byggingarlist. Schmidt, sem var forstjóri Google á árunum 2001-2011, hefur nú komið sér upp verðmætu fasteignasafni í Kaliforníu.

Schmidt, sem hætti stjórn Alhpabet árið 2019, fjárfesti á síðasta ári 61,5 milljónum dala í fasteign í Bel-Air hverfinu sem var lengi heimili Barron Hilton, fyrrum forstjóra Hilton hótelkeðjunnar. Schmidt og eiginkona hans keyptu einnig stóra fasteign í Montecito hverfinu fyrir 30,8 milljónir dala árið 2020.