Patrik Snær Atlason, sem kemur fram undir listamannsnafninu Patri!k, hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn hérlendis eftir að hafa gefið út smellinn Prettyboitjokko í mars á þessu ári. Í nægu hefur verið að snúast hjá Patrik á árinu. Rúmum mánuði eftir að hafa gefið út sitt fyrsta lag gaf hann út smáskífu. Auk þess hefur mikið verið að gera hjá tónlistarmanninum við að koma fram á hinum ýmsu viðburðum. Hann gaf á föstudag út jólalag.

Aðspurður kveðst Patrik helst tengja jólin við samveru með fjölskyldunni. „Við höldum alltaf jólin saman stórfjölskyldan og reynum að fara til útlanda í skíðaferðir annað hvert ár. Núna um jólin erum við að fara öll saman til Frakklands á skíði. Við erum mjög samheldin fjölskylda og verðum núna um 20 manns í sama húsinu. Það er mikil skíðamenning í fjölskyldunni og þessar skíðaferðir eru skemmtilegustu frí sem hægt er að komast í. Það er fátt jólalegra en að renna sér á skíðum.“ Patrik fær þó einnig að baða sig í sólinni yfir hátíðarnar en að loknu skíðafríinu í Frakklandi flýgur hann beint til Tenerife þar sem hann dvelur yfir áramótin og hleður batteríin fyrir komandi átök.

Hættur að vinna hjá afa

Eins og fyrr segir reis frægðarsól Patriks hratt. Hann hafði um nokkurra ára skeið starfað hjá Góu, sem er í eigu afa hans, Helga Vilhjálmssonar. Vegna anna í tónlistinni hefur hann aftur á móti neyðst til að hætta störfum hjá fjölskyldufyrirtækinu. „Ég vann alltaf hjá afa í Góu og fyrst um sinn var planið að halda því áfram samhliða tónlistinni. Mér fannst til að byrja með algjör vitleysa að hugsa til þess að vera bara að vinna í tónlistinni. Ég hef unnið frá því að ég var ungur og verið í fótbolta samhliða vinnu ásamt því að sinna ýmsu öðru. Ég er því vanur því að vera með marga bolta á lofti en það varð fljótlega svo mikið að gera í tónlistinni að það var of mikið að vera í annarri vinnu samhliða. Ég er því nýlega hættur hjá Góu og orðinn tónlistarmaður í fullu starfi.“

Aðspurður segist Patrik ekki hafa stefnt á að verða tónlistarmaður á sínum yngri árum. „Eins og svo marga krakka dreymdi mig alltaf um að verða atvinnumaður í fótbolta. Aftur á móti settu meiðsli meðal annars strik í reikninginn. Ég get varla spilað fótbolta lengur eftir að hafa slitið krossband í báðum hnjám og eftir að ég neyddist til að hætta missti ég svolítið það sem mér þótti einkenna sjálfan mig. Ég var ekki lengur fótboltamaðurinn Patrik og villtist á tímabili svolítið út af brautinni og vissi ekki almennilega hvað ég ætti að gera. Einn daginn ákvað ég að mig langaði að verða poppstjarna og kýldi bara á það. Ég var í söngskóla þegar ég var yngri og hef alltaf verið mjög athyglissjúkur. Mér hefur til dæmis alltaf þótt geggjað að grípa aðeins í míkrafóninn í partíum. Það er misjafnt hve hrifnir tónlistarmenn eru af því að koma fram en mér finnst það allra skemmtilegasta sem ég geri að koma fram.“

Jólagjafahandbókin fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér og nálgast blaðið hér.