Jón Gunnar Þórðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Mussila ehf. en Jón Gunnar hefur starfað sem markaðsstjóri fyrirtækisins síðastliðin tvö ár. Tekur hann við starfinu af Margréti Júlíönu Sigurðardóttur, annars stofnanda félagsins, sem hefur leitt Mussila frá upphafi en fyrirtækið var stofnað árið 2015. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Mussila ehf sérhæfir sig á sviði stafrænnar tónlistarkennslu. Kjarnavara Mussila er smáforrit sem ber sama heiti og kennir börnum grunnatriði tónlistar í gegnum áskoranir, ævintýri og skapandi leik. Mussila hefur náð langt á alþjóðamarkaði og unnið á annan tug verðlauna víða um heim. Má þar nefna Nordic EdTech Awards, Parents´ Choice Awards og nýverið gerði fyrirtækið útgáfusamning við NetEase í Kína,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að nú séu ákveðin kaflaskil í sögu fyrirtækisins þar sem framundan sé aukin áhersla á vöxt og ný viðskiptatækifæri og í því sambandi séu gerðar breyt­ingar á skipu­lagi fyrirtækisins. Margrét Júlíana muni nú einbeita sér að kynningu á starfsemi Mussila og sinna samskiptum við erlenda fjárfesta og samstarfsaðila. Jón Gunnar taki við sem framkvæmdastjóri og muni leiða vöxt og uppbyggingu dreifileiða, auk sölu og markaðssetningar erlendis, og muni einbeita sér að því að styrkja staðsetningu Mussila á markaði. Jón Gunnar og Hilmar Þór Birgisson núverandi tæknistjóri félagsins og meðstofnandi taki við stjórn á daglegum rekstri, Hilmar Þór sem framleiðslustjóri.

Jón Gunnar hefur víðtæka reynslu í verkefnastjórnun og stýringu á teymisvinnu. Hann er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í leikstjórn frá Drama Centre London. Jón Gunnar hóf störf hjá Mussila í maí árið 2018 og hefur sinnt stöðu markaðsstjóra. Áður starfaði hann sem leikstjóri og hefur leikstýrt á fjórða tug leikrita á Íslandi og erlendis.

„Mussila stendur á tímanótum og ég hlakka til við að takast á við þetta verkefni með okkar frábæra starfsfólki. Mussila hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og gerir börnum um allan heim kleift að læra tónlist á hnitmiðaðan og skemmtilegan hátt, það er einstök tilfinning að fá að vinna starf sem er samfélaginu til góða. Nú er okkar helsta áskorun að fjölga áskrifendum og styrkja rekstrargrundvöll félagsins. Innan Mussila er valinn maður í hverju rúmi og framtíðin er björt. Ég tel að Mussila hafi alla burði til þess að verða leiðandi á heimsvísu á sviði stafrænnar tónlistarkennslu barna,“ er haft eftir Jóni Gunnari í tilkynningunni.

Kjartan Örn Ólafsson, stjórnarmaður Mussila, segir undanfarin fimm ár hafa verið viðburðarík í sögu félagsins og einkennst af markvissri og árangursríkri uppbyggingu sem leidd hefur verið af Margréti Júlíönu. Það er mikill styrkur af því að hún muni nú einbeita sér að uppbyggingu og ásýnd félagsins á erlendri grundu.

„Jón Gunnar hefur sýnt að hann kann að leiða saman fólk til að vinna samhent að settu marki og ná árangri. Félagið býr yfir miklum vaxtatækifærum og er í sterkri stöðu til að nýta sér þau. Stjórnin væntir mikils af Jóni Gunnari og hlakkar til samstarfsins,“ segir hann.