Þann 16. maí síðastliðinn tók ný stjórn Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) við störfum. Guðmundur Ingvi Einarsson tekur við formennsku samtakanna af Lellu Ernudóttur en auk hans eru í stjórn Bjarki Steinn Birgisson, Elsa Bjarnadóttir, Hugrún Rúnarsdóttir, Linda Lyngmo, Rachel Salmon og Stefán Freyr Björnsson.

SVEF eru fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi. Í tilkynningu segir að samtökin hafi það að markmiði að miðla þekkingu og efla fagleg vinnubrögð í greininni, vera samræðuvettvangur félagsmanna og andlit stéttarinnar út á við.

SVEF sér árlega um framkvæmd Vefverðlaunanna, en fyrsta verðlaunaafhendingin var haldin árið 2000. Félagið stendur árlega fyrir ráðstefnunni IceWeb, sem er metnaðarfull alþjóðleg ráðstefna um vefmál, auk fjölda smærri fyrirlestra, umræðufunda og mannfagnaða fyrir félagsmenn.

Félagsmenn SVEF eru um 300 talsins og koma úr ýmsum sviðum vefheima en meðal félagsmanna má m.a. finna vefara, forritara, hönnuði, vefstjóra, prófara, markaðsstjóra, framkvæmdastjóra, ráðgjafa o.s.frv.

Spennandi haust framundan

Ný stjórn hefur þegar tekið til starfa og mun haustið byrja með krafti þegar fyrsti viðburður SVEF fer fram þann 5. október næstkomandi.

Viðburðurinn verður haldinn í Gróðurhúsinu, sal Grósku hugmyndahúss, og er opinn öllum. Á fyrsta fundinum verður áhersla lögð á innlenda App þróun og munu aðilar frá HOPP, Smitten og Nær sem er fyrsta klára verslunin á Íslandi, fjalla um sínar lausnir. Hægt er að skrá sig á viðburðurinn á Facebook síðu SVEF.