Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður hefur verið valin þjálfari Íslenska Kokkalandsliðsins sem Klúbbur matreiðslumeistara rekur. Snædís útskrifaðist sem matreiðslumaður 2018 og hefur alla tíð verið tengd keppnismatreiðslu.

Hún var fyrirliði í landsliðinu á heimsmeistaramótinu 2018 og var einnig fyrirliði í liðinu sem endaði í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Stuttgart 2020. Snædís hefur tekið þátt í keppninni um Kokk ársins og vann nýlega keppnina Nordic Challange sem haldin var á Akureyri.

Snædís hóf nám sitt á Apótekinu en lauk því svo á Hótel Sögu. Aðspurð segist Snædís þó ekki hafa ætlað sér að læra fagið en í dag starfar Snædís sem yfirmatreiðslumaður á ION Hótel.

„Ein af mínum stoltustu stundum var þegar ég gekk upp á svið til að fá afhent brons verðlaun á Ólympíuleikunum 2020 komin fjóra mánuði á leið. Ég á þá ósk að landsliðsfólkið okkar eigi eftir að upplifa þessa sömu tilfinningu og við ætlum okkar á pall 2024 og auðvitað stefnum við á gull,” segir Snædís.