Samfélagsmiðlastjarnan og metsölubókahöfundurinn Sólrún Diego hefur verið ráðin markaðsstjóri barnavöruverslananna Vonar verslunar og Bíum Bíum.

„Ég er mjög spennt að spreyta mig á þessu sviði og að vinna með þeim Eyrúnu og Olgu. Ég er búin að vera með minn miðil í sjö ár og finnst vera kominn tími á að nýta menntunina mína í eitthvað almennilegt,“ segir Sólrún en hún útskrifast um jólin úr viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti og samfélagsmiðla frá Háskólanum í Bifröst.

Þær Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir, eigendur Vonar verslunar, gengu nú á dögunum frá kaupum á Bíum Bíum.

Von verslun hefur boðið upp á leikföng, húsgögn, föt og aðrar barnavörur á meðan Bíum bíum hefur sérhæft sig í fjölbreyttu úrvali af barnafötum fyrir breiðari aldurshóp. Þannig er verslunin með einkadreifingarsamning við vörumerki frá Danmörku sem hafa notið vinsælda hér á landi.

„Ég er búin að vera mikill viðskiptavinur Bíum Bíum síðan ég eignaðist börn, og hefur hún verið mín uppáhalds barnavöruverslun hér á landi. Ég hef auk þess brennandi áhuga á markaðssetningu og barnavörum. Þá hef ég átt í góðum samskiptum við þær Eyrúnu og Olgu, en eftir að þær kaupa Bíum Bíum fengum við þessa hugmynd að ég myndi sjá um markaðssetningu verslunarinnar,“ segir Sólrún í samtali við Viðskiptablaðið.

Eyrún og Olga hyggjast reka verslanirnar áfram undir sitt hvoru nafni. Markmiðið sé þó að verða sér úti um stærra húsnæði sem rúmar báðar verslanir undir sama þaki. Auk þess leggja þær áherslu á að styrkja netverslunina og hafa verslanirnar sýnilegar á samfélagsmiðlum. Sólrún segir alls konar tækifæri liggja í netverslun og samfélagsmiðlum.

„Ég ætla að leggja áherslu á að aðgengi að netversluninni sé gott og að fólk úr öllum landshlutum geti skoðað og pantað sér vörur, að þú þurfir ekki að koma í búðina. Það eru því mörg tækifæri framundan að gera alls konar nýtt og ég er spennt að fá að koma öllum mínum hugmyndum á framfæri,“ segir Sólrún, spennt fyrir komandi misserum.