Eik fasteignafélag hefur ráðið Sturlu Gunnar Eðvarðsson í starf framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar. Hann mun bera ábyrgð á þróun fasteigna, leigurýma og lóða félagsins, ásamt því að leita að nýjum tækifærum innan sem utan félagsins. Sturla hóf störf í byrjun janúar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Sturla er menntaður rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst og hefur á sínum ferli m.a. stýrt endurskipulagningu og uppbyggingu Smáralindar sem framkvæmdastjóri í 10 ár.

Áður starfaði Sturla sem framkvæmdastjóri Samkaupa og þar áður sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Sturla hefur einnig unnið sem rekstrarráðgjafi og setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja hér á landi.

Sturla G. Eðvarðsson:

„Eik fasteignafélag er virkilega spennandi fyrirtæki og er á meðal öflugustu og framsæknustu fasteignafélaga landsins og hefur náð góðum árangri í rekstri og uppbyggingu á sínu eignasafni. Ég hlakka til að vinna með góðum hópi starfsfólks og takast á við krefjandi verkefni og nýjar áskoranir.“

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar:

„Við hlökkum til að fá Sturlu til liðs við okkur í Eik fasteignafélag og bjóðum hann velkominn til starfa. Félagið þakkar þann mikla áhuga á félaginu sem margar góðar umsóknir í starfið báru vitni um.“