Hampiðjan skilaði 16,9 milljóna evra hagnaði, sem jafngildir tæplega 2,5 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, á árinu 2021. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Til samanburðar var hagnaður félagsins rúmar 15 milljónir evra í lok árs 2020 og nemur hækkun á hagnaði samstæðunnar því um 11,5% á milli ára. Velta samstæðunnar jókst um 6,7% á milli ára og nam 172,7 milljónum evra, eða um 25 milljörðum króna, á síðasta rekstrarári.

Hagnaður Hampiðjunnar fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) hækkaði um 9% á milli ára og nam 30 milljónum evra á árinu 2021.

Sjá einnig: Hagnaður Hamiðjunnar eykst milli ára

Heildareignir samstæðunnar voru 273 milljónir evra og hafa hækkað úr 246,6 milljónum evra frá árslokum 2020. Þar af nam eigið fé 144,3 milljónum evra, en af þeirri upphæð eru 13,9 milljónir evra hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. Eiginfjárhlutfall félagsins var 52,8% á árinu 2021.

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021 verði greidd 1,8 krónur á hlut í arð til hluthafa, eða 900 milljónir króna.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar:

„Árið 2021 reyndist gott ár fyrir samstæðu Hampiðjunnar og virtist heimsfaraldurinn hafa haft tiltölulega lítil áhrif á fyrirtæki samstæðunnar þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður.“