Kröfum upp á 41,5 milljarða króna var lýst í þrotabú Aska Capital. Ekki er búist við því að mikið fáist upp í kröfurnar þar sem helsta eign Aska var tæplega sjö milljarða króna lán til dótturfélags þess, Avant, sem er í nauðasamningaferli. Endurskoðendafyrirtæki hefur verið ráðið til að vinna rannsókn á öllum málefnum Aska.

Vilja verða kröfuhafar

Að sögn Þorsteins Einarssonar, sem situr í slitastjórn Aska, var kröfuhafafundur haldinn í desember. Enn hefur ekki verið tekin afstaða til allra krafna. „Stór hluti krafnanna eru umdeildar og fara væntanlega í ágreining. Það stafar meðal annars af því að þeir kröfuhafar sem breyttu kröfum sínum á Aska í hlutafé árið 2009 vilja fá þeim gjörningum rift.“

Þorsteinn vísar þar til þess að stærstu óveðtryggðu kröfuhafar Aska breyttu skuldum sínum í hlutafé 15. maí 2009. Eftir þá breytingu var skilanefnd Glitnis stærsti eigandi bankans með 53,3% hlut og Saga Fjárfestingarbanki sá næststærsti með 18,1% hlut. Þetta hlutafé er í dag verðlaust og því reyna kröfuhafarnir að fá umbreytingunni rift. Þessi hópur lýsti langstærstum hluta krafna í búið. Næsti kröfuhafafundur í Öskum Capital verður 7. febrúar. Stefnt er að því að búið verði að taka afstöðu til allra krafna fyrir þann fund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.