*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 22. ágúst 2017 14:17

5% millilenda eingöngu

Úrtakskönnun sem gerð var af Isavia og Ferðamálastofu sýnir að 5% farþega nýta Keflavíkurflugvöll eingöngu til millilendingar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Einungis 5% þeirra brottfararfarþega sem fara um Keflavíkurflugvöll nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar. Þetta kemur fram í úrtakskönnun sem gerð var af Isavia og Ferðamálastofu á tímabilinu 24. júlí til 6. ágúst. Er hér átt við farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga. 

Könnunin sýnir einnig að 86% brottfararfarþega voru ferðamenn sem höfðu dvalið á Íslandi í eina nótt eða lengur. Að auki millilentu 6% farþega en nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma.

Könnunin var gerð í kjölfar umræðu sem skapaðist fyrr á árinu um áreiðanleika talninga á farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll. Þá sérstaklega óvissu um hlutfall farþega sem tengja á eigin vegum í gegnum flugvöllinn en lenda í brottfarartalningum að því er kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Í tilkynningunni segir: „Í kjölfar þeirrar umræðu sem skapaðist um þessa nýju ferðahegðun þóttu Isavia og Ferðamálastofu rétt að gera könnun til þess að tryggja sem best gagnsæi talninganna og áreiðanleika þeirra niðurstaðna sem úr þeim fást. Gert er ráð fyrir að gera aðra úrtakskönnun að vetri til svo hægt sé að sjá hvort munur greinist milli árstíða."

Ef horft er til talna um fjölda ferðamanna sem fóru frá landinu í júlí má samkvæmt þessu gera ráð fyrir að um 14 þúsund farþegar af 272 þúsundum hafi verið sjálftengifarþegar og teljist þar með ekki til ferðamanna.

Þess má geta fjallað var um málið á vef Túrista í vor. Þá umfjöllun má sjá hér.