Hlutabréfaverð í Sýn hækkað um 7% í dag og hafa verð bréfa félagsins ekki verið hærri í tvö ár. Bréf félagsins stóðu í 39,7 krónum á hlut við lok viðskipta í dag eftir 223 milljóna viðskipti.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Arion banka um 4,8% í dag í 5,1 milljarðs króna viðskiptum sem kemur til viðbótar við 2,7% hækkun bankans í gær. Alls skiptu um hendur bréf bankanum sem samsvarar um 2,6% eignarhlut í 116 viðskiptum. Líkt og Viðskiptablaðið fjallað nýlega um hafa erlendir vogunarsjóðir selt umtalsverðan hlut sinn í Arion banka á síðustu vikum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins héldu þau viðskipti áfram í dag.

Sjá einnig: Vogunarsjóðir selja og selja úr Arion

Eftir lokun markaða í gær sendi Arion banki frá sér tilkynningu að Seðlabankinn hefði samþykkt beiðni Arion banka um 15 milljarða króna kaup á eigin bréfum félagsins eða sem samsvarar um 8,7% af útgefnu hlutafé bankans. Bréf bankans standa í 109 krónum á hlut og hafa ekki verið hærri frá skáningu á markað árið 2018.

Alls hækkuðu 13 af 19 félögum á aðallista Kauphallarinnar í viðskiptum dagsins. Í heildina nam velta dagsins 8,1 milljörðum króna í 805 viðskiptum. TM hækkaði um ríflega 3% og Kvika um rúmlega 2%. Hins vegar lækkuðu bréf Iceland Seafood um 3%.