*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 5. febrúar 2021 18:10

Vogunarsjóðir selja og selja úr Arion

Tveir bandarískir vogunarsjóðir hafa selt bréf í Arion banka fyrir vel á þriðja tug milljarða að undanförnu.

Ingvar Haraldsson
Aðsend mynd

Tveir bandarískir vogunarsjóðir hafa selt bréf í Arion banka fyrir vel á þriðja tug milljarða að undanförnu.

Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í vikunni 30 milljónir hluta sem metnir eru á um þrjá milljarða króna samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu til kauphallarinnar. Þá seldi Taconic í síðustu viku 7% hlut á ríflega 11 milljarða króna að því er Fréttablaðið greindi frá. Þar með hefur Taconic selt bréf í Arion banka fyrir meira en 14 milljarða króna á tveimur vikum.

Eftir söluna í vikunni á Taconic 14,55% hlut í bankanum en átti í byrjun ársins um 23% hlut. Taconic er enn stærsti hluthafi Arion banka og er hlutur sjóðsins metinn á tæplega 26 milljarða króna. 

Þá hefur annar vogunarsjóður Sculptor Capital Management, sem áður hét Och-Ziff, einnig stóran hlut af eignarhlut sínum í bankanum að undanförnu. Þannig hefur eignarhlutur sjóðsins lækkað úr 9,99% í 2,94% frá því í byrjun desember. Alls má áætla að andvirði sölunnar sé um 11 milljarðar króna.

Viðskiptablaðið sagði frá því í janúar að Sculptor hefði selt bréf í bankanum fyrir um fjóra milljarða króna og átti þá 3,83% hlut í bankanum. Síðan þá hefur sjóðurinn selt tæplega 1% hlut til viðbótar á um 1,5 milljarða króna samkvæmt uppfærðri hluthafaskrá Arion banka

Hlutabréf í Arion banka standa nú í 101,25 krónum á hlut og hafa ekki verið hærri frá því bankinn var skráður á markað sumar 2018. Bréfin hafa hækkað um 19% undanfarið ár. 

Stikkorð: Arion banki Taconic Sculptor