*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 8. febrúar 2021 16:38

Arion hástökkvari á rólegum degi

1,7 milljarða króna velta var með bréf Arion banka í dag sem skiluðu 2,7% hækkun.

Ritstjórn
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Eyþór Árnason

Bréf Arion banka hækkuðu um 2,72% í 1,7 milljarða króna viðskiptum í dag. Ekkert annað félag náði 2% hækkun, og aðeins fjögur lækkuðu, öll mjög lítillega. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,32% og heildarvelta nam 3,7 milljörðum.

Bréf Sýnar hrepptu silfrið í dag með 1,92% hækkun í 83 milljóna króna viðskiptum, og í þriðja sæti voru bréf Eimskips með 1,71% hækkun í 41 milljóna veltu.

14 af 19 félögum á aðalmarkaði hækkuðu í viðskiptum dagsins, 4 lækkuðu en engin viðskipti voru með bréf Origo.

Kvika lækkaði um 0,29% í 90 milljóna viðskiptum, Síminn um 0,17% í 20 milljónum og Festi um 0,14% í 137 milljónum, á meðan lítil 2 milljóna króna viðskipti skiluðu bréfum Regins 0,11% lækkun.

Á eftir Arion, hvers bréf voru langtum veltumest, kom velta með bréf Icelandair, sem hækkaði um 0,82% í alls 444 viðskiptum sem sín á milli námu 544 milljónum, og voru það 62% allra viðskipta á aðalmarkaði. Marel hreppti svo veltubronsið með 1,46% hækkun í 368 milljóna króna viðskiptum.

Stikkorð: Hlutabréf