Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarbæjar á síðasta ári var neikvæð um 512 milljónir króna en áætlað var að 219 milljóna króna afgangur yrði á rekstrinum. Þetta kemur fram í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar fyrir síðasta ár.

Helst til var það hækkun launa vegna kjarasamninga og lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins sem fór nánast 900 milljónum fram yfir áætlanir.

Tekjur námu þá 20 milljörðum króna sem var 459 milljónum króna fram yfir áætlun. Afskriftir voru þá einnig umfram væntingar en rúmur milljarður var afskrifaður fram yfir það sem búist var við.

Skuldir bæjarfélagsins hækkuðu um 417 milljónir króna á árinu vegna fyrrnefndrar lífeyrisskuldbindingar. Skuldahlutfallið lækkaði þá en það stendur í 194% núna eftir að hafa verið hæst árið 2009, en þá var það 294%.

Heildareignir Hafnarfjarðarbæjar námu 48,4 milljörðum króna í lok árs, en þar af voru heildarskuldir og skuldbindingar um 40,1 milljarður króna - sem gefur eiginfjárhlutfall upp á um 17,2%.