Bjarni Benediktsson er bjartsýnn á afnám gjaldeyrishafta. Þetta kom fram í ræðu hans í Valhöll í morgun. „Það eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar afnám gjaldeyrishafta þar sem áætlun sem við virkjuðum í haust er í fullum gangi,“ sagði hann orðrétt í ræðunni.

Hann sagði jafnframt að breytingar á virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfunum horfi til aukins frelsis og eðlilegri verðlagningar. „Álögur sem birtast í virðisaukaskatti, vörugjöldum og tollum geta raðast mjög óheppilega saman. Svo ég taki bara aðeins eitt lítið dæmi sem ég rakst á nýlega er opinber álagning á sjónvarpsskjái um70%.  Við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið til að breyta þessu.  Eflaust verða einhverjir á móti lækkun vörugjalda eins og öðru – sumir virðast meira að segja trúa því að flatskjáir hafi átt stóran þátt í því að hér varð hrun,“ sagði hann.

Bjarni sagði að stóra hagsmunamálið væri að ná stöðugleika, en ekki þannig stöðugleika að hér verði stöðnun. Við verðum ævinlega að sækja fram, stefna hærra og gera betur. „Það ætlum við okkur að gera og ég veit að við eigum möguleikana. Og við þurfum að skoða þá með opnum huga,“ segir hann.