Yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu verður undirrituð af forsvarsfólki yfir 100 fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík á þriðjudaginn. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður verndari verkefnisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Festa .

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð, sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Áhersluþættirnir eru að: Ganga vel um og virða náttúruna; tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi; virða réttindi starfsfólks; hafa jákvæði áhrif á nærsamfélagið.

Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með fræðsludagskrá fyrir fyrirtæki um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Nánari upplýsingar og skráningarform er að finna á vef Festu.

Það eru Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn sem standa að verkefninu í samstarfi við Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála, Markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safetravel.