Actavis Group (ICEX: ACT) hefur gengið frá kaupum á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu Amide Pharmaceuticals Inc., sem er óskráð fjölskyldufyrirtæki í New Jersey. Í kjölfar úrskurðar bandarískra samkeppnisyfirvalda í samræmi við Hart-Scott Rodino samþykktina hefur Actavis nú öðlast öll réttindi til að ganga frá kaupunum.

Eins og áður hefur verið getið nam kaupverð Amide 500 milljónum dala, en til viðbótar eru allt að 100 milljónir dala sem eru skilyrtar og háðar góðri afkomu félagsins.

Kaupin á Amide veita Actavis sterka stöðu á bandaríska samheitalyfjamarkaðnum og gera fyrirtækinu kleift að markaðssetja lyf sín á bandaríska markaðnum. Sameinað fyrirtæki mun hafa eitt öflugasta lyfjaúrval á samheitalyfjamarkaðnum með yfir 500 lyf á markaði. Gert er ráð fyrir að samanlagður styrkur Actavis vörumerkisins, öflugs þróunarstarfs og víðtæks dreifikerfis í Evrópu, við sterka stöðu Amide á bandaríska markaðnum, muni afla fyrirtækinu nýrra tækifæra til áframhaldandi vaxtar, aukinnar arðsemi og auka þannig hag þess.

Um Actavis

Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki, stofnað 1956, sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Samstæðan hefur einnig sterka stöðu sem áreiðanlegur seljandi lyfjahugvits. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en starfsemi félagsins nær til 28 landa og starfsmenn þess eru um 7.000 talsins. Actavis starfrækir lyfjaþróun og framleiðslu í Búlgaríu, Tyrklandi, á Möltu, Íslandi, Serbíu og nú í Bandaríkjunum. Actavis starfrækir yfirgripsmikið sölunet um heim allan.

Um Amide

Amide var stofnað í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1983 en félagið sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á samheitalyfjum. Fyrirtækið er með 67 lyf á markaði, bæði í töflu- og hylkjaformi. Ennfremur er Amide með um 30 lyf í þróun og 12 umsóknir um markaðsleyfi (?ANDA?), sem bíða samþykkis FDA. Amide, stefnir að því að setja 10 ný lyf á markað á árinu 2005. Starfsmenn Amide eru rúmlega 200 talsins en afkastageta verksmiðju fyrirtækisins í New Jersey er um einn og hálfur milljarður taflna og hylkja á ári. Þá er verið að byggja nýja verksmiðju í New Jersey og með tilkomu hennar mun framleiðslugeta Amide aukast og verða um 6-8 milljarðar taflna og hylkja á ári. Áætlað er að verksmiðjan verði tekin í notkun á árinu 2006. Tekjur Amide á árinu 2004 námu 106,7 milljónum dala en hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 53,2 milljónir dala og hagnaður fyrir skatta 52,5 milljónir dala.