Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis hefur áhuga á að kaupa írska keppinautinn Pinewood Laboratories, segir í frétt The Sunday Times.

Hugsanlegt kaupverð er í kringum 120 milljónir evra, sem samsvarar 11,55 milljörðum króna.

Fyrirtækið er á meðal átta hugsanlegra kaupenda, segir í fréttinni, en Actavis berst nú við bandaríska lyfjafyrirtækið Barr um að kaupa króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva.

Bæði félögin hafa undirritað viljayfirlýsingu um að gera formlegt kauptilboð í Pliva, sem talið er að verði selt á yfir 2,3 milljarða dollara, sem samsvarar rúmlega 173 milljörðum króna.

Talið er að Barr hafi einnig áhuga á því að kaupa Pinewood. Stærsti samheitalyfjaframleiðandi heims, ísraelska fyrirækið Teva, hefur líka verið orðaður við Pinewood, ásamt þýska fyrirætkinu Stada og indverska fyrirtækinu Cadila Healthcare.