Nefnd um ramma peningastefnu var skipuð í mars 2017. Skýrslu nefndarinnar má nú nálgast á vef Stjórnarráðsins. En ráðstefna um skýrsluna verður haldin á Grand Hótel á morgun.

Í nefndinni sátu þrír hagfræðingar, Dr. Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild og formaður nefndarinnar, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnhagssviðs Samtaka atvinnulífsins og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra.

Nefnin fékk einnig nokkra erlenda hagfræðinga til að veita ráðgjöf um peninga- og gengisstefnu til framtíðar:

  • Patrick Honohan, fyrrum seðlabankastjóra Írlands, og Athanasios Orphanides, prófessor við MIT-háskóla og fyrrum seðlabankastjóra Kýpur – mat á reynslu af verðbólgumarkmiði fyrir Ísland og reifa hugsanlegar umbætur.
  • Sebastian Edwards, prófessor við UCLA-háskóla - mat á öðrum valmöguleikum peningastefnu fyrir Ísland en núverandi verðbólgumarkmið.
  • Kristin Forbes, prófessor við MIT-háskóla – skoðun á beitingu fjármálastöðugleikatækja.
  • Lars Jonung, prófessor við Háskólann í Lundi og Fredrik N. G. Andersson dósent við sama skóla - umfjöllun um íslenska peningastefnu í norrænum samanburði.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru að fjármálastöðugleiki hafi forgang á verðstöðugleika ef þær aðstæður koma upp að ógn skapist gagnvart hinum fyrrnefnda.

Einnig telur nefndin mikilvægt að ábyrgð Seðlabanka Íslands verði aukin og að bankinn beri einn ábyrgð á þjóðhagsvarúð og eindavarúð (e. micro prudential) í stað þess að ábyrgðin skiptist á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.Verðbólgumarkmið Seðlabankans skuli undanskilja húsnæðisverð.

Einnig telur nefndin að aðstoðarseðlabankastjórar ættu að vera tveir, annar með áherslu á fjármálastöðugleika og hinn með áherslu á hefðbundna peningastefnu.

Að fylgja leikreglunum miklvægara en val á leik

Í skýrslunni kemur fram að ástæða þess að Íslendingar hafi löngum búið við óstöðugleika og verðbólgu sé ekki pengingastefnunni sjálfri að kenna heldur að þeim leikreglum sem viðkomandi fyrirkomulag hafi krafist hafi ekki verið fylgt.

Tveir kostir með krónuna

Nefndin telur jafnframt að verði krónan áfram gjaldmiðill Íslands séu tveir kostir sem komi til greina.

1.) Að halda áfram með núverandi fyrirkomulag sem felur í sér að fylgja sjálfstæðri peningastefnu undir merkjum verðbólgumarkmiðs.

2.) Að hætta að reka sjálfstæða peningastefnu og festa gengi krónunnar varanlega niður með myntráði sem felur í sér að öll innlend seðlaútgáfa er tryggð með erlendum gjaldeyri.

Verðbólgumarkmið getur gengið upp

Ef sá kostur er valinn að hafa sjálfstæða peningastefnu er hún nær undantekningarlaust leidd undir merkjum verðbólgumarkmiðs hjá vestrænum lýðræðisríkjum segir í skýrslunni. Einnig kemur fram að nafnlaunahækkanir hafi verið 8% á ári og að engin peningastefna gangi upp hérlendis svo lengi sem nafnlaun haldi áfram að hækka verulega umfram mögulega framleiðni.

Myntráð áhætta fyrir fjármálastöðugleika

Einnig kemur fram að þó svo myntráð, sem hafi sína kosti og galla, feli í sér varanlega gengisfestu þá yrði það svo að Seðlabankinn gæti ekki þjónað sem lánveitandi til þrautavara líkt og hann gæti gangi Íslendingar inn í myntbandalag Evrópu. Bankakerfi án lánveitenda til þrautarvara eru óstöðug og það hefur lengi verið viðurkennd staðreynd.

Leikurinn skal tekinn alvarlega

Í lok samantektar undirstrikar nefndin mikilvægi þess að farið sé eftir leikreglunum. Sé það gert geit Íslendingar búið við trúverðuga efnahagsstefnu líkt og þekkist annars staðar á Norðurlöndunum.