Tekist var á um starfsemi Íslandspósts ohf. og meint brot félagsins á samkeppnislögum í sérstökum umræðum á Alþingi í dag. Veltu Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, upp áhyggjum af því að ríkisfyrirtækið ætti eignarhluti í fjölda einkafyrirtækja auk þess sem grunur léki á að starfsemi þess kynni að hafa haft neikvæð áhrif á rekstrargrunn annarra fyrirtækja á samkeppnismarkaði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, deildi ekki þessum áhyggjum af meintum samkeppnislagabrotum Íslandspósts. Hún lagðist einnig gegn hugmyndum innanríkisráðherra að Íslandspóstur ofh. yrði seldur , og félagið ætti áfram að vera í eigu og rekstri ríkisins. „Þannig vil ég sjá hann [reksturinn innsk. blm.] áfram,“ sagði hún.

Einkaaðilar búið til storm í vatnsglasi

„Fyrirtækið er í samkeppnisrekstri í annarri póstdreifingu, eins og við þekkjum. Fram hefur komið að fyrirtæki sem starfa á sama markaði telji að Íslandspóstur nýti sér stærð sina í skjóli einkaleyfis og stærðar og sé að skapa óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart þessum keppinautum sínum,“ sagði hún.

„Eftirlitsstofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftliritið hafa þetta eftirlit með rekstri Íslandspósts og ágreiningur hefur lengi verið við aðila á samkeppnismarkaði. Ég tel nú að þar séu menn að horfa svolítið á það að fleyta rjómann eins og hægt er en hafa minni áhuga á að sinna alþjónustu eins og Íslandspósti ber að gera,“ sagði Lilja Rafney. „Ég tel að þessi mál séu stormur í vatnsglasi,“ bætti hún síðan við.

Samkeppni ríkisins af hinu góða

Lilja Rafney vék að því að ýmsir einkaaðilar litu starfsemi Íslandspósts hornauga, en þeir vildu gjarnan sjálfir fá að taka yfir verkefni ríkisfyrirtækisins í hagnaðarskyni. Þá sagði hún að Íslandspóstur væri vissulega í samkeppni við einkaaðila á ýmsum sviðum. Það væri hins vegar jákvætt, en ekki neikvætt eins og af væri látið.

„Íslandspóstur er líka í stærri flutningum og hefur veitt þessum aðilum, eins og Landflutningum og Flytjanda virkilega samkeppni, sem ég held að sé mikil þörf á. En það er eins og það er að þegar að ríkið með einhvern rekstur og stígur aðeins á litlu tána á þeim, þá æpa þær og veina, en hafa engan áhuga á öðru en að fleyta rjómann ofan af því sem best gerist. Þetta held ég að háttvirtir þingmenn ættu að hugsa aðeins um og ekki fara að tala niður þetta fyrirtæki sem þjónar öllu landinu, og er grunnþjónusta,“ sagði Lilja Rafney.

Íslandspóstur í sáttameðferð hjá Samkeppnisyfirvöldum

Viðskiptablaðið hefur undanfarna mánuði gert málefnum Íslandspóst og samskiptum þeirra við samkeppnisyfirvöld skil. Ríkisfyrirtækið hefur verið til rannsóknar meðal annars vegna þess að hundruð milljóna hafa verið notaðar úr einkaréttarhluta rekstrarins til að greiða niður starfsemi félagsins á einkamarkaði. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að Íslandspósti hafi verið þessar niðurgreiðslur heimilar samkvæmt lögum um póstþjónustu.

Þann 12. febrúar síðastliðinn var greint frá því að félagið ætti í sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið vegna ætlaðra brota á samkeppnislögum, en fjöldi ábendinga og kvartana hefur borist til Samkeppniseftlirlitsins vegna starfsemi Íslandspósts undanfarin ár.